Skoðun

Skuldadagar Um­hverfis- orku- og loftslagsráðherra

Haraldur Þór Jónsson skrifar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra segir að það sé komið að skuldardögum í orkumálum, komið sé að tíma framkvæmda.

Mikið er ég sammála ráðherranum um að við eigum að afla aukinnar grænnar orku. Orka er undirstaða sjálfstæði þjóða og takist okkur að verða sjálfbær í orku eykur það lífsgæði allra Íslendinga.

Í byrjun árs 2023 vann KPMG fjárhagslega greiningu á áhrifum orkuvinnslu á Skeiða- og Gnúpverjahrepp þar sem um 35% allra raforku Landsvirkjunar hefur verið framleidd. Niðurstaðan var sláandi. Skattaumhverfi orkuvinnslu sýndi fram á að sveitarfélagið getur borið beint fjárhagslegt tjón af þeirri orkuvinnslu sem á sér stað í sveitarfélaginu. Samt er framleitt rafmagn í dag í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem dugar öllum heimilum og fyrirtækjum á Íslandi, að undanskilinni stóriðjunni.

Í framhaldi að því hófst mikil vinna hjá Samtökum orkusveitarfélaga þar sem útfærðar voru tillögur sem myndu laga stöðuna. Ríkisstjórnin áttaði sig á því að þetta væri ekki góð staða og skipaður var starfshópur til að endurskoða skattaumhverfi orkuvinnslu á Íslandi. Starfshópurinn vann frábært starf og skilaði fullmótuðum tillögum þann 8. febrúar á þessu ári sem þáverandi fjármálaráðherra kynnti. Tilkynnt var að búið væri að samþykkja tillögurnar í ríkisstjórn og næsta skref væri að leggja fram frumvarp sem tryggir sveitarfélögum og íbúum þess sanngjarnan ávinning af grænni orkuvinnslu.

Síðan þá hefur ekkert gerst. Ítrekað hefur verið kallað eftir frumvarpinu en fátt er um svör. Sveitarfélög sem átta sig á því að enginn ávinningur er að því að heimila framkvæmdir á orkumannvirkjum munu ekki sætta sig við slíkt. Sveitarfélög sem verða fyrir fjárhagslegu tjóni af því að heimila orkumannvirki eru að brjóta á rétti íbúa sinna með því að heimila virkjanir sem veldur sveitarfélögunum tjóni.

Forsendan fyrir því að tími framkvæmda hefjist í uppbyggingu grænnar orkuframleiðslu er að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp sem afnemur undanþágur orkumannvirkja frá lögbundnum tekjustofnun sveitarfélaga. Slíkt frumvarp þarf að verða að lögum og þannig tryggjum við ávinning allra Íslendinga af grænni orkuframleiðslu.

Það er sannarlega komið að skuldardögum og ábyrgðin liggur hjá ríkisstjórninni!

Höfundur er oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem mest raforka hefur verið framleidd í sögu Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×