Einn hefur fundist látinn og sex er enn saknað eftir að lystisnekkjan Bayesian sökk aðeins um sjö hundruð metrum frá höfninni í Porticello á Sikiley snemma í morgun. Fimmtán var bjargað, þar á meðal eins árs gömlu stúlkubarni.
Móðir stúlkunnar lýsti því hvernig hún hélt höfði hennar úr kafi þar til björgunarlið kom þeim til aðstoðar.
„Ég hélt henni á floti með öllum mínum kröftum, ég teygði handleggina upp til að forða henni frá því að drukkna,“ sagði konan við ítalska blaðið La Repubblica.
„Það var kolniðamyrkur. Ég gat ekki haldið augunum opnum í sjónum. Ég öskraði á hjálp en það eina sem ég heyrði í kringum mig voru öskur hinna,“ sagði hún.
Yfirlæknir á sjúkrahúsinu sem tók á móti mæðgunum segir að þeim heilsist báðum vel eftir atvikum. Fylgst sé með stúlkunni í varúðarskyni.

Til leigu fyrir tæpar þrjátíu milljónir á viku
Kafarar fundu lík eins þeirra sem var saknað við flak snekkjunnar á um fimmtíu metra dýpi í morgun. Hinna sex er enn leitað. Á meðal þeirra er Mike Lynch, breskur kaupsýslumaður, sem auðgaðist á nýsköpun í hugbúnaðarbransanum á 10. áratugnum. Hann lenti síðar í kasti við lögin í Bandaríkjunum þar sem hann var ákærður fyrir blekkingar í tengslum við sölu á fyrirtæki. Hann var sýknaður á endanum.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að snekkjan sé í eigu aflandsfélags sem Angela Bacares, eiginkona Lynch, er skráð fyrir. Bacares er sögð á meðal þeirra fimmtán sem var bjargað í morgun.
Samkvæmt upplýsingum ítalskra viðbragðsaðila hvolfdi snekkjunni áður en hún sökk. Vonskuveður var á Miðjarðarhafi í morgun og frásagnir hafa verið um að snekkjan kunni að hafa lent í skýstróki.
Snekkjan Bayesian var þekkt fyrir 75 metra hátt álmastur, eitt það hæsta í heimi. Hún var auglýst til leigu fyrir allt að 29,7 milljónir íslenskra króna á viku.