Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynnt hafi verið um alvarlega líkamsárás laust fyrir klukkan miðnætti í gær. Sá sem grunaður er um verknaðinn var handtekinn og verður yfirheyrður síðar í dag. Rannsóknin er sögð unnin í samvinnu við barnaverndaryfirvöld.
Fórnarlamb annarrar árásar ekki alvarlega slasað
Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um aðra líkamsárás þar sem hnífi var beitt. Sá sem grunaður er um hnífsstunguna var handtekinn og verður yfirheyrður síðar í dag. Fórnarlamb árásarinnar er ekki alvarlega slasað, að sögn lögreglu.
Rannsókn beggja þessara mála er sögð á frumstigum en miða vel. Lögregla hyggst ekki veita frekari upplýsingar um málin að svo stöddu.
Mikill viðbúnaður lögreglu og slökkviliðs var í miðborg Reykjavíkur á tólfta tímanum í gærkvöldi. Heyra mátti mikið sírenuvæl í miðborginni og sáu sjónarvottar bæði lögreglu- og sjúkrabíla á mikilli hraðferð þar þegar klukkan var farin að ganga miðnætti.
Fréttin hefur verið uppfærð.