Erlent

Telja öldu hafa grandað eftir­líkingu af víkinga­skipi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bátnum Naddoði hvolfdi undan Vesturlandi í Noregi á þriðjudagskvöld. Kona á þrítugsaldri festist undir bátnum og drukknaði en fimm komust lífs af.
Bátnum Naddoði hvolfdi undan Vesturlandi í Noregi á þriðjudagskvöld. Kona á þrítugsaldri festist undir bátnum og drukknaði en fimm komust lífs af. AP/norski herinn og strandgæslan

Norska lögreglan segir að mikil alda hafi líklega hvolft eftirlíkingu af víkingaskipi sem fórst undan ströndum Noregs í vikunni. Sex manns voru um borð í skipinu en bandarískur forminjafræðingur lést.

Báturinn Naddoður (n. Naddodd) var á leið frá Færeyjum til Noregs þegar hann lenti í hvassviðri og miklum öldugangi á þriðjudagskvöld. Honum hvolfdi utan við bæinn Stað á Vesturlandi á suðvesturströnd Noregs, að sögn AP-fréttastofunnar. 

Fimm komust í björgunarbát en 29 ára gömul bandarísk kona sem festist undir bátnum fannst látin á miðvikudag.

Björgunarlið sagði að öldur hefðu verið allt að fimm metra háar þegar bátnum hvolfdi. Eftirlifendur sögðu veðrið hafa snarversnað og orðið mun verra en spáð var.

Naddoður var tíu metra langur opinn tvímastra bátur, smíðaður í Færeyjum. Formaður samnefnds bátaklúbbs þar sagði breska ríkisútvarpinu BBC að bátnum hefði áður verið siglt til Íslands, Hjaltlands og Noregs.

„Þetta er ekki víkingaskip, þetta er færeyskur fiskibátur án vélar en með segl,“ sagði Bergur Jacobsen.

Norskir fjölmiðlar segja að konan sem fórst hafi heitið Karla Dana. Hún er sögð hafa sérhæft sig í víkingatímanum. Hún var meðal annars félagi í Landkönnuðaklúbbnum (Explorers Club), þekktum alþjóðlegum samtökum sem norðurskautsleiðangursmenn stofnuðu um vísindarannsóknir og uppgötvanir.

Naddoður bundinn við bryggju í Máley í Noregi eftir að bátnum var komið að landi.AP/norska lögreglan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×