Fótbolti

Cecilía Rán hélt hreinu í stór­sigri Inter

Smári Jökull Jónsson skrifar
Cecilía Rán er hjá Inter á láni frá Bayern Munchen.
Cecilía Rán er hjá Inter á láni frá Bayern Munchen. Vísir/Vilhelm

Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt markinu hreinu í stórsigri Inter í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Júlíus Magnússon og félagar í Fredrikstad unnu góðan sigur í Noregi eftir tvo tapleiki í röð.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er á láni hjá ítalska félaginu Inter frá þýska stórliðinu Bayern Munchen. Inter lék sinn fyrsta leik í ítölsku deildinni í dag og var Cecilía Rán í byrjunarliði liðsins.

Óhætt er að segja að ferill hennar á Ítalíu byrji vel því Inter vann öruggan 5-0 sigur á liði Sampdoria. Inter var komið í 3-0 forystu eftir fyrri hálfleikinn og bætti tveimur mörkum við í þeim síðari.

Cecilía Rán hélt því hreinu í sínum fyrsta leik en Inter lauk keppni í 5. sæti í ítölsku deildinni á síðustu leiktíð og var síðasta liðið inn í úrslitakeppni efstu fimm liðanna.

Cecilía Rán hefur verið leikmaður Bayern Munchen síðan árið 2022 en meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá henni síðustu misserin og fékk hún lítinn spiltíma í Þýskalandi.

Júlíus spilaði í góðum sigri spútnikliðsins

Í Noregi var Júlíus Magnússon á sínum stað í byrjunarliði Fredrikstad sem mætti Odd á heimavelli. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Morten Bjorlo og Henrik Johansen tvö mörk fyrir heimalið Fredrikstad í síðari hálfleiknum og tryggðu liðinu 2-0 sigur. Kærkominn sigur eftir tvo tapleiki í röð.

Júlíus lék allan leikinn fyrir Fredrikstad í dag en liðið er nýliði í norsku deildinni. Gengið hefur verið frábært en Fredrikstad er í baráttu um Evrópusæti þegar níu umferðir eru eftir af deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×