Erlent

Hand­tekin grunuð um inn­brot á 22 lúxus heimili á Ibiza

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á þessari stillu sést hvernig heimilismaður kemur að þjófunum en honum virðist hafa tekist að reka þá á brott.
Á þessari stillu sést hvernig heimilismaður kemur að þjófunum en honum virðist hafa tekist að reka þá á brott. Guardia Civil

Lögregluyfirvöld á Spáni hafa handtekið þrjá, tvo menn og konu, sem eru grunuð um að hafa brotist inn í fjölda íbúða á Ibiza og notað gas til að slæva heimilisfólk.

Ránin eru sögð hafa staðið yfir í nokkur ár.

Samkvæmt umfjöllun Guardian braust fólkið inn í lúxusíbúðir um miðja nótt, klædd svörtu og með andlit sín hulin. Oft komst það á brott með mikil verðmæti en þegar lögreglu bar að sögðu íbúar svipaða sögu af því að hafa vaknað um morguninn hálf sljóir og utan við sig.

Lögreglu fór þá að gruna að þjófarnir beittu gasi áður en þeir létu til skarar skríða.

Þremenningarnir eru sakaðir um að hafa rænt að minnsta kosti 22 heimili á Ibiza yfir fimm ára tímabil. 

Fólkið var handtekið viku eftir innbrot í villu Nick Grimshaw, stjórnanda morgunþáttar Radio 1 á Bretlandseyjum, en hann og fjölskylda hans sváfu á meðan farið var ránshendi um heimilið.

Guardian segir þó ekki staðfest að handteknu séu grunuð um það innbrot.

Lögregla telur að á umræddum fimm árum hafi verðmæti þýfisins sem fólkið hafði á brott með sér numið um það bil 100 milljóna króna.

Þjófarnir náðust eftir að lögreglu tókst að rekja nokkur stolin farartæki. Við húsleit fannst fjöldi hluta sem var saknað eftir innbrotin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×