Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir svo að á morgun geri spár ráð fyrir að lægð verði fyrir vestan okkur og úrkomusvæði frá henni yfir landinu með sunnanátt. Rigningin nái þó ekki yfir á austasta hluta landsins, svo þar ætti að hanga þurrt yfir daginn.
„Á fimmtudag er síðan önnur lægð í kortunum á svipuðum slóðum. Sú verður líklega dýpri en lægð morgundagsins. Það þýðir að vindur verður allhvass (sunnan- eða suðvestanátt), jafnvel hvass í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Fimmtudagurinn verður vætusamur því loftið sem fylgir lægðinni er mjög rakt. Loftið er einnig hlýtt og hiti er líklegur til að ná 20 stigum í hnjúkaþey í norðausturfjórðungi landsins,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Sunnan 8-13 m/s með súld og rigningu, en hægari og þurrt austanlands fram undir kvöld. Hiti 7 til 14 stig.
Á fimmtudag: Sunnan og síðar suðvestan 10-20 m/s, hvassast í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Víða rigning framan af degi. Dálítil væta síðdegis og léttir til norðaustan- og austanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu.
Á föstudag: Suðvestan 5-13 og léttskýjað austantil á landinu, annars dálítið súld. Rigning vestanlands um kvöldið. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðaustantil.
Á laugardag: Stíf suðvestanátt og víða bjart, en skýjað með köflum og smáskúrir vestanlands. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á sunnudag: Vaxandi norðanátt með rigningu á norðanverðu landinu, en skýjað með köflum og dálitlir skúrir sunnantil. Kólnandi veður.
Á mánudag: Norðanátt með dálítilli rigningu eða slyddu á Norður- og Austurlandi, en þurrt að mestu annars staðar. Kalt í veðri.