Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að gul veðurviðvörun vegna hvassviðris sé í gildi á Suðausturlandi til kvölds. Má þar gera ráð fyrir 8 til 25 metra á sekúndu og hviðum allt að 35 metrum á sekúndu. Líkur séu á sandfoki og gætu varasamar aðstæður skapast fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Sömuleiðis er ráðlegt að tryggja lausamuni sem geta fokið.
Veðurstofan spáir dálitlum skúrum eða éljum norðaustanlands, en annars víða léttskýjað. Það muni svo draga úr vindi í kvöld og nótt. Fremur svalt í veðri áfram, en hiti gæti þó náð ellefu stigum syðst yfir hádaginn.
Fremum hæg vestlæg eða norðvestlæg átt og yfirleitt bjartviðri á morgun, en strekkingur austantil.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Vestlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og yfirleitt léttskýjað, en norðvestan 8-15 og lítilsháttar skúrir eða él norðaustanlands. Hiti 3 til 11 stig að deginum, hlýjast syðst.
Á föstudag: Hæg breytileg átt og yfirleitt bjartviðri, en austan 5-13 m/s og dálítil rigning suðvestanlands. Hiti 2 til 10 stig.
Á laugardag: Norðaustan 5-13 m/s og skýjað með köflum, en 13-18 m/s og rigning eða slydda sunnan- og austantil. Hlýnar heldur í bili.
Á sunnudag: Útlit fyrir norðlæga átt með rigningu eða slyddu, en bjart og þurrt sunnan heiða. Kólnar heldur í veðri.
Á mánudag og þriðjudag: Líklega austlæg eða breytileg átt og skýjað að mestu, en lítilsháttar væta syðst.