Innlent

Sigurður Helgi Guð­jóns­son látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Helgi Guðjónsson var fram­kvæmda­stjóri Húseigendafélagsins frá 1977 til 1985 og aft­ur frá 1992 til 2024.
Sigurður Helgi Guðjónsson var fram­kvæmda­stjóri Húseigendafélagsins frá 1977 til 1985 og aft­ur frá 1992 til 2024. Huso

Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi formaður Húseigendafélagsins, er látinn. Hann lést 5. september síðastliðinn, 71 árs að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun.

Sigurður Helgi lauk menntskólaprófi frá MT árið 1974 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands fimm árum síðar. Hann hlaut svo héraðsdómslögmannsréttindi 1980 og hæstaréttarlögmannsréttindi 1986.

Fram kemur að hann hafi frá upphafi starfsferils síns samofinn Húseigendafélaginu, verið lögfræðingur og framkvæmdastjóri félagsins frá 1977 til 1985 og aftur frá 1992 til 2024. Þá hafi hann verið formaður félagsins frá árinu 1995.

Sigurður samdi frumvarp til nýrra laga um fjöleignarhús sem lögfest voru árið 1994, sem og frumvarp til húsaleigulaga sem einnig voru lögfest sama ár. Sömuleiðis var hann ráðgjafi við samningu frumvarps til laga um fasteignakaup.

Sig­urður Helgi sat jafnframt í jafnréttisráði frá 1982-1992 og kær­u­nefnd jafn­rétt­is­mála frá 1992-1995, ásamt samn­inga­nefnd lög­fræðinga í ríkisþjónustu, svo og í stjórn Lögfræðingafélags Íslands og kjaranefnd Lögmannafélags Íslands, ásamt því að sinna kennslu við lagadeild Háskóla Íslands.

Hann skrifaði fjölda greina um málefni fjölbýlishúsa og húseigenda, meðal annars á Vísi.

Eiginkona Sigurðar Helga var Herdís Péturs­dóttir sem lést árið 2012. Eftirlifandi unn­usta hans er Marilyn Herdís Mellk. Sigurður lætur eftir sig fjögur börn, þau Helgu Pálínu, Friðjón, Bjarna Magnús, og Gunnhildi Berit.

Jarðarför Sigurðar Helga verður gerð frá Hallgrímskirkju miðvikudaginn 18. september næstkomandi klukkan 13.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×