Erlent

Tveir hand­teknir vegna þjófnaðar á „Stúlka með blöðru“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verkið sem birtist undir Waterloo-brú.
Verkið sem birtist undir Waterloo-brú. Wikipedia/Dominic Robinson

Tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við ránið á „Stúlka með blöðru“, einu þekktasta verki listamannsins Banksy. Verkinu var stolið úr gallerýi í Lundúnum um helgina.

Verkið hefur verið endurheimt og Larry Fraser, 47 ára, og James Love, 53 ára, verið ákærðir fyrir þjófnaðinn. 

Lögregla var kölluð til eftir að brotist var inn í gallerýið rétt fyrir hádegi á sunnudag. „Stúlka með blöðru“ er eina verkið sem var tekið en prentið er metið á 49 milljónir króna.

„Stúlka með blöðru“, sem sýnir stúlku teygja sig eftir hjartalaga blöðru, birtist fyrst á vegg í austurhluta Lundúna og svo undir Waterloo-brú árið 2002. Í kjölfarið var takmarkað upplag eftirprenta og handspreyjaðar útgáfur settar á sölu.

Margar eru afar verðmætar.

Árið 2018 var eitt afrit selt á uppboði á milljón punda en aðeins sekúndum eftir hamarshögg losnaði striginn og rann í gegnum tætara sem var innbyggður í rammann utan um myndina.

Hinn nýi eigandi ákvað að eiga verkið, sem fékk nýjan titil; „Ástin er í ruslafötunni“. Hann seldi það þremur árum síðar á uppboði hjá Sotheby's á 18,5 milljónir punda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×