Sölvi hefur verið að stýra Víkingum í fjarveru Arnars sem tekur þessi dægrin út þriggja leikja bann. Sölvi mun stýra Víkingum frá hliðarlínunni á Meistaravöllum í dag þegar að KR og Víkingur eigast við í þýðingarmiklum Reykjavíkurslag í Bestu deildinni.
Sölvi Geir sér um að útfæra þau föstu leikatriði sem Víkingar fá í leikjum sínum og nú er hann einnig kominn í sama hlutverk hjá íslenska karlalandsliðinu. Sölvi er nýkominn úr fyrsta landsliðsverkefninu í þjálfarateymi Age Hareide en í fyrri leiknum af tveimur, leik gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeild UEFA, komu bæði mörk Íslands eftir föst leikatriði.
Góða athyglin sem Sölva Geir hefur fengið er verðskulduð að mati Arnars sem er hæstánægður með aðstoðarþjálfara sinn.
Er hann ekkert að stela þrumunni af þér?
„Jú heldur betur. Við erum farnir að kalla hann Sir Sölva í Víkinni,“ svaraði Arnar og bætti við kíminn: „Maður þakkar bara fyrir að hann heilsi manni á morgnanna. Það er farið að rigna all verulega upp í nefið á honum. En að öllu gamni slepptu er þetta bara frábært fyrir hann. “
„Hann á þetta svo sannarlega skilið. Ég lít frekar á þetta þannig að ef Sölvi Geir er með stóran prófíl, þá er Víkingur með stóran prófíl. Þetta er bara geggjað fyrir hann.“
Sölvi Geir stýrir Víkingum gegn KR á Meistaravöllum í Bestu deildinni seinna í dag í leik sem hefst klukkan fimm og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.