Fótbolti

Þórður tekur við starfi Margrétar

Sindri Sverrisson skrifar
Margrét Magnúsdóttir hlúir að Írenu Héðinsdóttur Gonzalez á Evrópumóti U19-landsliða í fyrrasumar.
Margrét Magnúsdóttir hlúir að Írenu Héðinsdóttur Gonzalez á Evrópumóti U19-landsliða í fyrrasumar. Getty/Harry Murphy

Margrét Magnúsdóttir, sem stýrði U19-landsliði kvenna í lokakeppni EM í fyrrasumar, er hætt þjálfun liðsins og mun nú taka að sér önnur störf hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

Þórður Þórðarson, sem stýrði U19-landsliði kvenna á árunum 2014-2021, tekur nú aftur við liðinu eftir að hafa verið aðstoðarmaður Margrétar.

Margrét, sem er eina konan á meðal landsliðsþjálfara KSÍ, mun nú í staðinn taka við þjálfun U15-landsliðs kvenna og sjá um Hæfileikamótun KSÍ. Þar að auki mun hún sinna starfi þjálfara U23-landsliðs kvenna sem smám saman hefur verið að fá fleiri verkefni. U23-liðið lék fjóra vináttulandsleiki í fyrra og á fyrir höndum tvo vináttulandsleiki við Finna í næsta mánuði.

Þórður hættir nú sem þjálfari U16- og U17-landsliða kvenna og er KSÍ að vinna í því að skipa í þær stöður.

Þórður Þórðarson þekkir það vel að stýra U19-landsliði kvenna.KSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×