Skoðun

Vernd náttúrunnar er á­kvörðun

Eva Dögg Davíðsdóttir skrifar

Vernd náttúru er ákvörðun. Ákvörðun sem getur verið duttlungum háð sé hún ekki tryggð í lögum. Í gær var dagur íslenskrar náttúru, og því við hæfi að við stöldrum við og spyrjum okkur: Hvernig viljum við að ákvarðanir sem varða náttúruna séu teknar?

Íslensk náttúra er stórbrotin, en hún er líka brothætt. Við vitum að álag á auðlindir landsins eykst með hverju árinu og áform um nýtingu náttúruauðlinda í þágu orkuskipta, á sama tíma og afleiðingar loftslagsbreytinga raungerast, auka álagið. Það er þess vegna nauðsynlegt að við stígum skrefið til fulls og tryggjum að vernd náttúrunnar liggi til grundvallar í allri ákvarðanatöku og stefnumótun.

Við þurfum auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Með auðlindaákvæði gætum við tryggt að auðlindir landsins verði verndaðar og nýttar á sjálfbæran hátt, óháð því hver situr við völd á hverjum tíma. Þegar verndun náttúru er varin með stjórnarskrárákvæði er hún ekki lengur háð skammtímasjónarmiðum – hún verður varanleg, ákvörðun sem raunverulega stendur vörð um náttúruna fyrir komandi kynslóðir.

Vinstri græn hafa alltaf staðið vörð um náttúruna. Við höfum alltaf sett náttúruvernd á dagskrá til að mynda í gegnum friðlýsingar landsvæða og höfum barist fyrir því að viðkvæm svæði séu í verndarflokki orkunýtingar. Við höfum líka tekið skref til þess að skapa sátt um auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands. Slíkt ákvæði myndi festa það í sessi að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar og séu eingöngu nýttar með sjálfbærni í fyrirrúmi.

Við fögnuðum degi íslenskrar náttúru í gær, en ég vona að á hverjum degi getum við verið sammála um það að vernd náttúrunnar er grundvöllur farsællar framtíðar – og að vernd hennar í stjórnarskrá er eina leiðin til þess að hún fái að njóta vafans um ókomna tíð.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×