Skoðun

Engum til sóma

Sigmar Guðmundsson skrifar

Þessi þingvetur fer nú eiginlega ekkert sérstaklega vel af stað eftir þingsetningu í síðustu viku. Það fer ákaflega lítið fyrir stjórnarmálum á Alþingi, að undanskildu fjárlagafrumvarpinu, sem mun lítið gera til að lina fjárhagslegar þjáningar fólks og fyrirtækja vegna hárrar verðbólgu og séríslensku ofurvaxtanna. Í stað þess að vera tilbúin í þingvetur með raunverulegum aðgerðum fyrir fólk og fyrirtæki ber mest á ósættinu, sem er ekki nýtt, en óvenju nöturlegt að þessu sinni.

Algerlega óháð því hvaða skoðun menn og flokkar hafa á hælisleitendamálum þá hljótum við öll að fordæma að langveikt barn í hjólastól sé peð og fórnarlamb átaka við ríkisstjórnarborðið. Atburðarásin sem hefur birst okkur síðasta einn og hálfa sólarhringinn er engum til sóma og hún er beinlínis ógn við heilsu Yazans Tamimi. Hann þarf umönnun og aðstoð að halda, en ekki þeim hringlandahætti sem við höfum séð.

Stjórnmálin á Íslandi verða að komast upp úr skotgröfunum þegar fólk, eða barn í þessu tilviki, í sérstaklega viðkvæmri stöðu á allt sitt undir. Um þetta hljótum við að geta verið sammála. Þetta var ekki góð stjórnsýsla, sagði dómsmálaráðherra í gær. Það er rétt, en við skulum ekki bara nota kerfistungumál þegar við lýsum þessu. Þetta er ómannúðlegt og óverjandi, algerlega óháð því hvaða skoðun við höfum á hælisleitendum og því regluverki.

Í þetta ósætti fer öll orka stjórnarflokkana á sama tíma og brýn hagsmunamál ná ekki einu sinni inn í þingið á síðasta þingvetri kjörtímabilsins. Á Alþingi ríkir málaþurrð stjórnarflokkanna. Við ættum auðvitað að vera ræða raunverulegar aðgerðir vegna verðbólgu og vaxta og biðlista heilbrigðiskerfisins sem lengjast frekar en hitt.

Alvarlegum vanskilum fjölgar hratt samkvæmt fréttum nýverið og það væri meiri reisn yfir því að takast á við þau knýjandi verkefni frekar en að æðsta stjórn ríkisins birtist okkur með þeim endemum sem verið hefur síðasta sólarhringinn.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×