Fótbolti

Rodri hótar verk­falli ef ekkert lagast

Sindri Sverrisson skrifar
Rodri segir leikmenn ekki geta sýnt sínar bestu hliðar þurfi þeir að spila sextíu leiki á ári.
Rodri segir leikmenn ekki geta sýnt sínar bestu hliðar þurfi þeir að spila sextíu leiki á ári. Getty/Carl Recine

Spænski miðjumaðurinn Rodri segir að knattspyrnumenn séu að fá sig fullsadda af leikjaálaginu sem enn heldur áfram að aukast. Lið hans Manchester City spilar sjö leiki á aðeins þremur vikum og þá taka við landsleikir.

City tekur á móti Inter annað kvöld í Meistaradeild Evrópu og á svo stórleikinn við Arsenal á sunnudaginn. Tveimur dögum síðar er svo leikur við Watford í enska deildabikarnum og þannig mætti áfram telja.

Englandsmeistararnir spila líkt og önnur lið að lágmarki tveimur leikjum meira fram að 16-liða úrslitunum í Meistaradeildinni í ár, vegna breytinganna á fyrirkomulaginu þar, og þá fjölgar leikjum hjá liðinu einnig vegna stækkunar HM félagsliða.

Rodri er svo landsliðsmaður Spánar sem fór alla leið í úrslit og varð Evrópumeistari í Þýskalandi í sumar.

„Ég held að við séum nálægt því,“ svaraði Rodri þegar hann var spurður hvort að leikmenn gætu verið á leið í verkfall vegna fjölgunar leikja.

„Það er skiljanlegt og þið getið spurt hvaða leikmann sem er, hann myndi segja það sama. Ef þetta heldur svona áfram þá höfum við engan annan kost, en við skulum sjá til,“ sagði Rodri.

Á síðustu tveimur leiktíðum hefur City spilað alls 120 leiki ef allt er talið. Samt fjölgar leikjum í ár og við bætast svo landsleikir eins og fyrr segir. Álagið er einfaldlega of mikið, að mati miðjumannsins magnaða:

„Reynslan segir mér að 60-70 leikir er of mikið. Ég held að á milli 40-50 leikir sé passlegt svo að leikmenn geti verið upp á sitt besta. Annars mun það bitna á leik þeirra,“ sagði Rodri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×