Fótbolti

Ís­lendinga­lið Vålerenga og Wolfs­burg með mis­góða sigra í Meistara­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane kom við sögu í gríðarlega öruggum sigri Wolfsburg.
Sveindís Jane kom við sögu í gríðarlega öruggum sigri Wolfsburg. Getty Images/Cathrin Mueller

Vålerenga vann gríðarlega öflugan 2-1 útisigur á Anderlecht í von sinni um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu. Á sama tíma tryggði Wolfsburg sér sæti þökk sé 7-0 útisigri á Fiorentina. Alexandra Jóhannsdóttir var eina landsliðskona Íslands sem var í byrjunarliði síns liðs.

Alexandra hefði ef til vill viljað vera á bekknum en Fiorentina átti hreinlega engin svör við mögnuðum sóknarleik Wolfsburg í kvöld. Hin þaulreynda Marina Hegering braut ísinn strax á 6. mínútu og kom Wolfsburg í 2-0 með öðru marki sínu á 25. mínútu.

Alexandra Popp bætti þriðja markinu við á 38. mínútu og Julie Brand bætti fjórða markinu við áður en flautað var til hálfleiks. Popp bætti við öðru marki sínu í upphafi síðari hálfleiks og fullkomnaði þrennu sína á 57. mínútu þegar gestirnir komust 6-0 yfir.

Skömmu síðar kom Sveindís Jane Jónsdóttir inn af bekknum hjá Wolfsburg og fékk því mikilvægar mínútur en landsliðskonan hefur verið að glíma við meiðsli. Vivien Endemann skoraði sjöunda mark Wolfsburg í blálokin og þýska liðið svo gott sem komið í riðlakeppnina þó síðari leikurinn í Þýskalandi sé enn eftir.

Sædís Rún Heiðarsdóttir hóf leik Vålerenga í Belgíu á varamannabekknum en gestirnir frá Noregi gátu vart byrjað betur. Michaela Kovacs kom Vålerenga yfir á 14. mínútu og Karina Sævik tvöfaldaði forystuna aðeins tveimur mínútum síðar.

Stefanie Vatafu minnkaði muninn fyrir Anderlecht þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum og þegar 42 mínútur voru á klukkunni dró enn frekar til tíðinda. Kovacs fékk þá beint rautt spjald og Anderlecht fann því lyktina af endurkomu í síðari hálfleik.

Hún kom ekki og unnu gestirnir mikilvægan 2-1 sigur. Sædís Rún kom af bekknum þegar tíu mínútur lifðu leiks og hjálpaði sínu liði að halda út. Seinni leikur liðanna fer fram í Noregi og sker úr um hvort liðið fer í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.


Tengdar fréttir

Amanda skoraði og er skrefi nær riðlakeppninni

Landsliðskonan Amanda Andradóttir var á skotskónum þegar lið hennar Twente frá Hollandi vann 4-1 sigur á króatíska liðinu Osijek. Allar líkur eru á því að Twente fari í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×