Innlent

Fimmti hver myndi helst velja að flytja til Dan­merkur

Atli Ísleifsson skrifar
Köben heillar.
Köben heillar. Getty

Einn af hverjum fimm Íslendingum nefnir að Danmörk yrði fyrir valinu ef þeir gæti flutt til hvaða lands sem er.

Þetta er niðurstaða Þjóðarpúls Gallup. Í öðru sæti er Spánn en þangað væri rúmlega einn af hverjum tíu til í að flytja. Þar á eftir kemur Noregur og þá næst Ítalía, Bandaríkin og Svíþjóð.

Í tilkynningu frá Gallup segir að fólk yfir sextugu og fólk milli þrítugs og fertugs er spenntast fyrir að flytja til Danmerkur.

„Fólk yfir fimmtugu og fólk milli þrítugsog fertugs er einna spenntast fyrir að flytja til Spánar. Fólk undir þrítugu er spenntara fyrir flutningi til Noregs eða Svíþjóðar en þau sem eldri eru. Fólk milli fimmtugs og sextugs er einna spenntast fyrir að flytja til Ítalíu en fólk undir fimmtugu er spenntara fyrir að flytja til Bandaríkjanna en eldra fólk.“

Kjósendur Flokks fólksins velja Spán

Ennfremur segir að íbúar á landsbyggðinni eru spenntari en höfuðborgarbúar fyrir að flytja til Noregs en því sé öfugt farið þegar kemur að því að flytja til Danmerkur, Svíþjóða eða Bandaríkjanna.

„Fólk með meiri menntun en minni er líklegra til að vera til í að flytja til Danmerkur eða Svíþjóðar en því er öfugt farið þegar kemur að Bandaríkjunum.

Þau sem kysu Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna, Viðreisn, Vinstri græn, Miðflokkinn eða Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag myndu helst flytja til Danmerkur, þau sem kysu Flokk fólksins eða Sjálfstæðisflokkinn myndu helst flytja til Spánar en þau sem kysu Sósíalistaflokkinn flyttu helst til Noregs,“ segir í tilkynningu frá Gallup.

Spurt var: „Ef þú gætir flutt til hvaða lands sem er, hvaða land yrði fyrir valinu?“ Um var að ræða netkönnun sem Gallup gerði dagana 29. ágúst til 8. september. Heildarúrtakið var 1.718 og þátttökuhlutfallið 48,9 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×