Skoðun

Ráð­stefna um þjóðar­á­tak í hús­næðis­málum

Ámundi Loftsson skrifar

Tillaga til Alþingis, sveitarfélaga, verkalýðforystu og annarra sem láta sig húsnæðismál varða.

Ástand húsnæðismála á Íslandi hefur lengi verið í ólestri og fer ört versnandi. Mikill fjöldi fólks mun því að óbreyttu búa áfram við óviðunandi aðstæður.

Óþarfi er að draga hér upp sérstaka mynd af stöðu þessara mála. Við vitum öll að ástand þeirra er okkur öllum til skammar. Það vantar heildarstefnu í húsnæðismálum.

Hér er því lögð fram eftirfarandi tillaga til Alþingis, sveitarstjórna, verkalýðsfélaga og allra sem ábyrgð bera á þessum málum og þeirra sem láta sig húsnæðismál varða.

Efnt verði til opinnar ráðstefnu um húsnæðismál. Þar verði þau greind þaula og í framhaldi unnar tillögur um framtíðarskipan þeirra. Ráðstefnan fái allan þann tíma sem málefnið þarfnast.

Boðun hennar verði auglýst í fjölmiðlum og þannig tryggt að allir sem eitthvað telja sig hafa til málanna að leggja komist þar að með skoðanir sínar og tillögur.

Marka verður nýja stefnu um landnýtingu, skipulags- og lóðamál, byggingareglur, viðmið og tilgang fasteignagjalda, lánamál og hvaðeina annað, – allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Öðru fremur verður þetta verkefni að byggja á því að þörfin fyrir húsnæði til heimilishalds er ekki efnahagsleg meinsemd. Það eru mannréttindi að eiga heimili.

Allt mælir með því að kjörnir fulltrúar og almenningur taki höndum saman og komist að niðurstöðu sem víðtæk sátt yrði um og tafarlaust hrundið í framkvæmd. Allsherjar ráðstefna er þar rökrétt byrjun. Aðild Alþingis, sveitarstjórna og verkalýðshreyfingar að þessu verkefni munu síðan tryggja að samþykktar tillögur ráðstefnunnar verði að veruleika.

Höfundur er fyrrverandi sjómaður og bóndi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×