Fótbolti

Guð­mundur lagði upp í sigri á meisturunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðmundur og félagar fögnuðu sigri gegn armensku meisturunum.
Guðmundur og félagar fögnuðu sigri gegn armensku meisturunum. Alex Nicodim/NurPhoto via Getty Images

Guðmundur Þórarinsson átti hlut í 2-0 sigri liðs hans Noah á Pyunik í armensku úrvalsdeildinni í fótbolta síðdegis.

Guðmundur byrjaði í vinstri bakverðinum hjá Noah sem fékk Pyunik í heimsókn í dag. Pyunik varð meistari á síðustu leiktíð og Noah náði Evrópusæti.

Markalaust var í hálfleik en aðeins tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum þegar Guðmundur lagði upp mark fyrir Portúgalann Goncalo Gregorio.

Gregorio var aftur á ferðinni á 60. mínútu þegar hann lagði upp annað mark leiksins fyrir Frakkann Virgile Pinson.

Noah vann 2-0 og er með 10 stig í fimmta sæti, jafnt Pynik að stigum sem er sæti neðar. 

Einhver óregla er á leikjaplaninu í armensku deildinni en Noah hefur aðeins leikið fimm leiki í deildinni, samanborið við topplið Van sem hefur spilað átta.

Noah er sjö stigum frá toppnum en á þrjá leiki inni á toppliðið. Liðin á þar á milli, í 2.-4. sæti, hafa ýmist spilað sex eða sjö leiki.

Guðmundur og félagar drógust gegn Víkingi í Sambandsdeild Evrópu í vetur. Liðin munu mætast í fjórðu umferð keppnarinnar, í Armeníu, þann 28. nóvember næst komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×