Hermann hefur þjálfað ÍBV undanfarin þrjú ár. Í sumar stýrði hann liðinu til sigurs í Lengjudeildinni og það endurheimti því sæti sitt í Bestu deildinni.
Í frétt á heimasíðu ÍBV segir að það hafi verið eindreginn vilji stjórnar knattspyrnudeildar að halda Hermanni en vegna breytinga á búsetu hans hafi hann ákveðið að hætta sem þjálfari liðsins.
Undir stjórn Hermanns varð ÍBV í 8. sæti Bestu deildarinnar 2022 en féll í fyrra. Eyjamenn unnu svo Lengjudeildina sem fyrr sagði.
Hermann stýrði ÍBV einnig 2013. Liðið endaði þá í 6. sæti. Hann hefur einnig stýrt karla- og kvennaliðum Fylkis, karlaliði Þróttar Vogum og verið aðstoðarþjálfari Kerala Blasters og Southend United.