Manninum var gefið að sök að veitast fyrirvaralaust með ofbeldi að öðrum manni með því að veita honum olnbogaskot í andlitið sem varð til þess að sá sem varð fyrir árásinni nefbrotnaði.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni og vinur hans sem var með honum umrædda nótt sögðu báðir að þegar þeir hafi spurt manninn hvers vegna hann hafi framið árásina hafi hann sagt: „for Putin“ eða „fyrir Pútín“.
Sagðist hafa ætlað að veifa leigbubíl
Árásarmaðurinn neitaði sök fyrir dómi. Hann sagðist hafa verið undir miklum áhrifum áfengis um nóttina eftir að hafa verið á tveimur skemmtistöðum í miðbænum. Hann hafi verið að ganga um Hverfisgötu með aðra höndina á lofti, til þess að kalla á leigubíl, þegar hann hafi rekist utan í gangandi vegfaranda.
Þrátt fyrir það hafi hann haldið för sinni áfram, en skömmu síðar verið hrint í jörðina og verið haldið niðrir. Skömmu síðar hafi hann verið handtekinn af lögreglu.
Árásarmaðurinn kannaðist ekki við lýsingu mannanna um að hafa sagt: „fyrir Pútín“. Þá taldi hann blóðbletti á peysunni sinni annað hvort vera vínbletti eða vegna blóðs úr slagsmálum sem hann hafði reynt að stöðva fyrr um kvöldið. Hann sagðist rólegur að eðlisfari og ekki hneigður til ofbeldis.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni og áðurnefndur vinur hans lýstu atburðunum með svipuðum hætti. Þeir höfðu verið að ganga um bæinn í rólegheitum þegar þeir hefðu mætt ókunnugum manni sem hafi gengið rólega á móti þeim og síðan skyndilega gefið öðrum þeirra olnbogaskot í andlitið. Þeim hafi verið mjög brugðið og sá sem varð fyrir árásinni verið útataður blóði.
Vinur hans hefði strax snúið árásarmanninn niður og spurt hvers vegna hann hefði ráðist á manninn, og hann gefið þeim áðurnefnt svar: „fyrir Pútín“.
Ummælin til marks um annarlegt hugarástand
Dómurinn mat framburð árásarmannsins ótrúverðugan og byggði heldur á framburði þess sem varð fyrir árásinni og vinar hans. Þá sagði dómurinn um ummæli hans að þau hafi endurspeglað mikla ölvun og annarlegt hugarástand hans á verknaðarstundu.
Líkt og áður segir var maðurinn sakfelldur og hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Þá er honum gert að greiða manninum sem varð fyrir árásinni 400 þúsund krónur í miskabætur og 702 þúsund í sakarkostnað.