Íslenski boltinn

Tarik í bann eftir fræknu frammi­stöðuna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tarik Ibrahimagic skoraði jöfnunar- og sigurmark Víkings í leiknum við Val en fékk einnig að líta gult spjald og er af þeim sökum í banni næstu helgi.
Tarik Ibrahimagic skoraði jöfnunar- og sigurmark Víkings í leiknum við Val en fékk einnig að líta gult spjald og er af þeim sökum í banni næstu helgi. vísir / pawel

Tarik Ibrahimagic, leikmaður Víkings, var í dag dæmdur í eins leiks bann vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Hann missir af næsta leik Víkinga um komandi helgi.

Aganefnd KSÍ kom venju samkvæmt saman í dag og var Ibrahimagic á meðal þeirra sem dæmdir voru í bann vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Eitt slíkt sem hann hlaut í 3-2 sigri á Val, þar sem Ibrahimagic skoraði sigurmark Víkings, gerir að verkum að hann verður í leikbanni þegar Víkingur mætir Stjörnunni um næstu helgi.

Sigurður Gunnar Jónsson verður í leikbanni í liði Stjörnunnar í sama leik, sökum uppsafnaðra spjalda.

Lúkas Logi Heimisson og Orri Sigurður Ómarsson mega ekki leika með Val gegn Breiðabliki í Kópavogi og þeir Grétar Snær Gunnarsson og Kristján Flóki Finnbogason verða ekki með FH gegn ÍA.

Það mun um minna fyrir botnlið Fylkis sem verður án fyrirliða síns Ragnars Braga Sveinssonar í gríðarmikilvægum leik við HK en Kópavogsliðið verður án Atla Hrafns Andrasonar í þeim leik.

Finnur Tómas Pálmason fékk þá gult spjald í 7-1 sigri KR á Fram um síðustu helgi og missir vegna þess af leik KR við KA norðan heiða. Dagur Ingi Valsson verður ekki með KA en hann fékk rautt spjald í sigri KA á Fylkis um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×