Erlent

Ný­nasisti sagðist ekki hafa stungið börn vegna ras­isma

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubíll við Valkea-verslunarmiðstöðina í Oulu. Myndin er þó ekki frá stunguárásunum þar í sumar.
Lögreglubíll við Valkea-verslunarmiðstöðina í Oulu. Myndin er þó ekki frá stunguárásunum þar í sumar. Vísir/EPA

Finnskur nýnasisti sem stakk tvö börn í verslunarmiðstöð í Oulu í Finnlandi í sumar hafnaði því að hann hefði verið knúinn áfram af kynþáttahatri þegar réttarhöld hófust yfir honum í vikunni. Hann er ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Sebastian Lämsä er þekktur hægriöfgamaður í Finnlandi. Hann tilheyrði öfgahreyfingunni Norðurvígi sem eru bönnuð í landinu. Hann stakk tvö börn í Valkea-verslunarmiðstöðinni í miðborg Oulu í júní. Annað barnið var fjórtán ára gamall drengur af erlendum uppruna.

Lögregla hafði strax grunsemdir um að rasismi hefði verið ástæða árásarinnar. Lämsä neitaði því fyrir dómi í gær. Hann hafnaði því einnig að hann hefði ætlað sér að drepa börnin, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.

Viku eftir að Lämsä stakk börnin var önnur stunguárás gerð í sömu verslunarmiðstöð. Lögreglan hefur sagt að árásarmaðurinn þar hafi reynt að herma eftir Lämsä.

Lämsä þessi á sér langan sakaferil. Hann hlaut dóm fyrir að piparúða stjórnmálamann í gleðigöngu í Oulu árið 2012. Síðar var hann dæmdur fyrir stunguárás í útgáfuhófi fyrir bók um hægriöfgahreyfinguna í Finnlandi í aðalbókasafni Jyväskylä.

Þá leikur grunur á um að Lämsä hafi tengst sprengiefni sem fannst á pósthúsi í Oulu árið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×