Erlent

Obama leggur land undir fót fyrir Har­ris í næstu viku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Obama fór mikinn á landsþingi Demókrata í sumar við mikinn fögnuð viðstaddra.
Obama fór mikinn á landsþingi Demókrata í sumar við mikinn fögnuð viðstaddra. Getty/Kevin Dietsch

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, verður á faraldsfæti í barátturíkjunum í næstu viku til að hvetja fólk til að kjósa Kamölu Harris í forsetakosningunum í nóvember.

Obama mun hefja för sína í Pennsylvaníu, hvers nítján kjörmenn gætu ráðið úrslitum. Hann mun fylgja á hæla Donald Trump, sem hyggst snúa aftur til Butler á laugardag, þar sem hann sætti banatilræði í júlí.

Bæði Barack og ekki síður eiginkona hans Michelle vöktu mikla lukku þegar þau komu fram á landsþingi Demókrata í sumar og lýstu yfir stuðningi sínum við Harris. 

„Þetta er 78 ára milljarðamæringur sem hefur ekki hætt að væla um vandamálin sín frá því að hann kom niður gullrúllustigann fyrir níu árum,“ sagði forsetinn fyrrverandi á landsþinginu. 

„Við þörfnumst ekki fjögurra ára í viðbót af vandræðum og veseni og kaos. Við höfum séð þá mynd áður og vitum að framhaldsmyndin er oftast verri. Bandaríkin eru reiðubúin fyrir nýjan kafla. Bandaríkin eru reiðubúin fyrir betri sögu. Við erum reiðubúin fyrir Kamölu Harris forseta.“

Eins og stendur hefur Harris eins prósents forskot á Trump í Pennsylvaníu en þar mun verða afar mikilvægt fyrir forsetaefnin að ná til kjósenda af rómönskum uppruna. 

Um 90.000 íbúa Pennsylvaníu af rómönskum uppruna eru taldir eiga eftir að gera upp hug sinn en Biden tryggði sér kjörmenn Pennsylvaníu með 80.000 atkvæða mun árið 2020 og Trump með 44.000 atkvæðum árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×