Lífið

Slátur­gerð, Sherry og súkku­laði á Hellu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það var feikna góð stemming í sláturgerðinni þar sem heimilisfólk og starfsfólk á Lundi tók þátt.
Það var feikna góð stemming í sláturgerðinni þar sem heimilisfólk og starfsfólk á Lundi tók þátt. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eitt af haustverkum margra heimila er að taka slátur til að eiga í kistunni í vetur og myndast oft skemmtileg stemming við sláturgerðina. Á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu er alltaf tekið slátur þar sem heimilismenn eru í aðalhlutverki.

Það var yndislegt að heimsækja Lund á Hellu og sjá fólkið, heimilisfólkið og starfsfólkið taka slátur saman.

„Já, allir sem hafa gaman af og getu þeir taka þátt að sjálfsögðu og svo margir sem horfa á líka, sem geta ekki tekið í saumaskapinn. Þetta er bara ákveðin hefð og þykir mjög gaman,” segir Lilja Einarsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Lundi.

Lilja Einarsdóttir, sem er hjúkrunarforstjóri á Lundi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimilisfólkið hafði greinilega mjög gaman af því að rifja upp gamla takta úr sláturtíðinni.

„Já, þau hafa gaman af því og svo er Sherry og súkkulaði, bara gaman. Slátur er bara mjög gott hvort sem það er kalt eða steikt eða heitt eða hvað sem er. Hér elska allir slátur,” segir Fríða Björk Þorbjörnsdóttir, matartæknir á Lundi.

Fríða Björk Þorbjörnsdóttir, matartæknir á Lundi, sem ætlar að vera dugleg að hafa slátur í matinn í vetur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En konurnar í saumaskapnum fussuðu og sveiuðu yfir gervivömbunum, þær vilja alvöru vambir.

„Já, þetta er bara plat núna, innihaldið er reyndar eins en það er ekki eins á bragðið,” segir Sigrún Kristín Sveinbjarnardóttir, heimilismaður á Lundi.

Starfsfólkið á Lundi lét ekki sitt eftir liggja í sláturgerðinni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þetta var gert á hverju heimili held ég vanalega en það er ekki jafn mikið í dag enda er orðið færra fólk á heimilunum,” segir Guðmunda Tyrfingsdóttir, heimilismaður á Lundi.

Guðmunda Tyrfingsdóttir var dugleg í saumaskapnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og heimilisfólkinu hlakkar til vetrarins þegar það fær slátur af og til í matinn.

„Mér finnst það æðislegt og með kartöflumús og öllu saman, algjört æði,” segir Ragnhildur Rögnvaldsdóttir, heimilismaður á Lundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.