Þegar tímabilið var hálfnað tók Vísir saman tölfræði þökk sé tölfræðiveitunni Wyscout yfir markverði Bestu deildarinnar og hver þeirra hefði komið í veg fyrir flest mörk (e. prevented goals).
Nú þegar tímabilinu er lokið er þess virði að skoða tölfræðina á nýjan leik. Vert er að taka fram að Mollee Swift, markvörður Þróttar Reykjavíkur, er ekki á listanum hér að neðan þar sem upplýsingar hennar er hreinlega ekki að finna á Wyscout.
Líkt og Vísir vakti athygli á fyrr í sumar kemur á óvart að Telma Ívarsdóttir, markvörður Íslandsmeistara Breiðabliks, sé ekki efst á listanum en hún fékk varla á sig mark í sumar.
Alls fékk Telma á sig 12 mörk í þeim 20 leikjum sem hún spilaði. Alls fékk Breiðablik á sig 13 mörk í 23 leikjum. Á endanum hlaut Telma gullhanskann en hann hlýtur sá markvörður sem fær á sig fæst mörk í deildinni.
Það vekur vissulega athygli að þær tvær af þremur efstu á listanum yfir „prevented goals“ eru jafnframt þær sömu og fengu á sig flest mörk í deildinni. Það má því með sanni segja að þær hafi staðið í ströngu í sumar og ljóst að það er ekki hægt að kenna Tinnu Brá Magnúsdóttur um fall Fylkis niður í Lengjudeildina.
Listann yfir þá markverði sem komu í veg fyrir flest mörk má sjá hér að neðan sem og hversu mörg mörk þær fengu á sig. Að lágmarki þurfti að spila fimm leiki til að komast á listann.
- Tinna Brá Magnúsdóttir (Fylkir) 21 leikur, 42 mörk á sig | Kom í veg fyrir 9.64 mörk
- Monica Wilhelm (Tindastóll) 21 leikur, 44 mörk á sig | Kom í veg fyrir 4.69 mörk
- Telma Ívarsdóttir (Breiðablik) 20 leikir, 12 mörk á sig | Kom í veg fyrir 3.79 mörk
- Aldís Guðlaugsdóttir (FH) 20 leikir, 40 mörk á sig | Kom í veg fyrir 3.49 mörk
- Erin McLeod (Stjarnan) 16 leikir, 25 mörk á sig | Kom í veg fyrir 2.25 mörk
- Harpa Jóhannsdóttir (Þór/KA) 10 leikir, 16 mörk á sig | 0.01 mark í mínus
- Birta Guðlaugsdóttir (Víkingur) 10 leikir, 11 mörk á sig | 0.42 mark í mínus
- Fanney Inga Birkisdóttir (Valur) 23 leikir, 18 mörk á sig | 2.3 mörk í mínus
- Shelby Money (Þór/KA) 12 leikir, 19 mörk á sig | 2.44 mörk í mínus
- Sigurbjörg Katla Sveinbjörnsdóttir (Víkingur) 12 leikir, 23 mörk á sig | 3.34 mörk í mínus
- Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving (Stjarnan) 5 leikir, 16 mörk á sig | 4.39 mörk í mínus
- Vera Varis (Keflavík) 20 leikir, 42 mörk á sig | 8.71 mark í mínus