FTX varð gjaldþrota eftir að viðskiptavinir gerðu áhlaup á kauphöllina í kjölfar frétta af vafasömum viðskiptaháttum stjórnenda hennar í nóvember 2022. Milljónir viðskiptavina hennar misstu þá aðgang að reikningum sínum.
Sam Bankman-Fried, stofnandi og forstjóri FTX, var handtekinn og ákærður fyrir stórfelld fjársvik en hann hafði fært innistæður viðskiptavina FTX út úr kauphöllinni til þess að halda rafmyntavogunarsjóðinum Alameda Research á floti. Alls reyndust átta milljarða dollarar horfnir út úr FTX þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Bankman-Fried var dæmdur í 25 ára fangelsi í fyrra.
Nú segir skiptastjóri FTX að tekist hafi að endurheimta á bilinu 14,7 til 16,5 milljarða dollara af eignum FTX, að hluta til með því að seljar eignir eins og hlut í gervigreindarfyrirtækinu Anthropic. Þannig fái fyrrverandi viðskiptavinir FTX allt að 119 prósent af innistæðum sínum til baka á næstu mánuðum, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Sumum viðskiptavinum finnst það þó ekki nóg. Innistæður þeirra væru mun meira virði ef þeim hefði ekki verið stolið. Þeir benda máli sínu til stuðnings á að virði rafmyntarinnar bitcoin hafi þrefaldast frá því að FTX varð gjaldþrota.