Skoðun

Hvernig líður þér í dag?

Hildur Vilhelmsdóttir skrifar

Í dag, 10. október, er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Í ár ber dagurinn heitið: "It is Time to Prioritize Mental Health in the Workplace" þar sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) beinir sjónum sínum að geðheilbrigði á vinnustöðum. Hún hvetur vinnustaði og stofnanir til að standa vörð um andlega heilsu starfsfólks síns.

Fólk á vinnumarkaði ver meirihluta af vökutíma sínum í vinnu, eða að meðaltali um 168 klst. á mánuði á íslenskum vinnumarkaði. Því er mikilvægt að skoða hvaða áhrif vinnuumhverfið hefurá heilsu starfsfólks.

Geta vinnustaðir gert eitthvað til að hlúa að starfsfólki sínu og stuðla að vellíðan þeirra?

Vinnustaðir geta í raun gert fjölmargt til að stuðla að vellíðan starfsfólks, hvort sem um er að ræða líkamlega, andlega eða félagslega vellíðan. Mikilvægt er að huga að líðan starfsfólks heildrænt, þar sem ekki nægir að fjárfesta í besta stólnum ef á sama tíma er litið framhjá óæskilegri samskiptahegðun eða langvarandi álagi. Eru einhverjir þættir í starfsumhverfinu sem tæma orku starfsfólks og hafa neikvæð áhrif á vellíðan? Getum við mögulega hjálpast að við að bæta líðan starfsfólks með nærandi starfsumhverfi og hvað felst í nærandi starfsumhverfi?

Starfsfólki, sem líður vel í vinnunni sýnir betri afköst, upplifir minni streitu, er ólíklegra til að upplifa einkenni kulnunar og tekur að jafnaði færri veikindadaga en það starfsfólk sem líður illa á vinnustaðnum, þá dregur vellíðan starfsfólks úr starfsmannaveltu Því er mikilvægt fyrir fyrirtæki að tryggja að starfsfólki þeirra líði vel og vellíðan starfsfólks ætti alltaf að vera forgangsmál stjórnenda.

Á vinnustöðum er nauðsynlegt að vinna markvisst að því að tryggja jákvæð samskipti, öfluga samvinnu, skýra ferla og boðleiðir, styrkja stjórnun og skapa heilbrigða vinnustaðamenningu. Með því móti minnkum við líkur á árekstrum. Það er ekki síður mikilvægt að starfsfólk upplifi að það tilheyri, að skoðanir þeirra skipti máli og þau fái stuðning frá samstarfsfólki og stjórnendum.

Heilbrigt vinnuumhverfi er sameiginlegt verkefni allra á vinnustaðnum. Sköpum í sameiningu umhverfi sem stuðlar að vellíðan starfsfólks, bæði í leik og starfi. Tökum eftir hvert öðru, bætt líðan starfsfólks byrjar hjá okkur sjálfum – öll höfum við áhrif.

Höfundur er mannauðsráðgjafi hjá Attentus.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×