Körfubolti

„Verðum að gera betur og halda haus, þetta var enn­þá okkar leikur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, var sáttur með margt í leik sinna manna í kvöld. 
Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, var sáttur með margt í leik sinna manna í kvöld.  Vísir/Bára

Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, var ánægður með frammistöðuna en svekktur með niðurstöðuna, 86-87 tap gegn Stjörnunni. Hann segir sína menn þurfa að vera sterkari andlega og ekki missa stjórn á skapinu í samræðum við dómarana. 

„Mjög fúlt. Ég var ánægður með leikinn og margt sem við gerðum. Leiddum mest allan tímann en náum ekki að slíta þá alveg frá okkur, sem sýnir líka hversu gott lið þeir eru. Reynslumiklir og brotnuðu ekki þegar við náðum áhlaupum, en virkilega fúlt að ná ekki að klára þetta.“

KR var með forystu lengst af í fjórða leikhluta en missti leikinn frá sér undir lokin.

„Við vorum reyndar með þetta í okkar hendi þegar hálf sekúnda var eftir, tvö víti og við vinnum. Við vorum ekki að gera nein brjáluð mistök. Þeir stigu bara upp, Ægir setti þrist, Hilmar setti fáránlegt skot hérna í lokin. Þetta bara gott lið sem við vorum að spila við.“

Jakob var að lokum spurður út í tæknivilluna sem liðið fékk á sig undir lokin og gaf Stjörnunni tækifæri til að taka forystuna. Hann segir sína menn verða að halda betur haus.

„Við vorum komnir með aðvörun. Slógum í stólinn og fengum tæknivillu. Það er nákvæmlega það sem gerðist, rétt eða rangt skiptir ekki máli, við verðum að gera betur og halda haus. Þetta var ennþá okkar leikur á þessum tímapunkti, tveimur stigum yfir og sex sekúndur á skotklukku. Við þurfum að vera sterkari andlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×