Fimm friðargæsluliðar hafa særst af völdum ísraelskra hermanna í Líbanon frá því á fimmtudag. Þá særðust tveir indónesískir friðargæsluliðar særðust þegar þeir féllu úr eftirlitsturni eftir að ísraelskur skriðdreki skaut að honum. Á föstudag særðust tveir til viðbótar frá Sri Lanka og í gær varð friðargæsluliði fyrir skotsárum í sunnanverðu Líbanon.
Fjörutíu ríki fordæmdu árásir Ísraela á friðargæsluliðana harðlega í yfirlýsingu. Þær þyrfti að stöðva strax og rannsaka. Friðargæsluliðið væri sérstaklega nauðsynlegt nú í ljósi ástandsins. Ísraelar hafa haldið uppi hörðum árásum á Líbanon í meira en viku til að svara árásum Hezbollah-samtakanna.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hvatti Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, til þess að koma friðargæsluliði í skjól og frá Suður-Líbanon í myndbandsávarpi sem hann sendi frá sér í dag. Þetta ætti að gerast strax. Utanríkisráðherra Ísraels lýsti Guterres óvelkominn í Ísrael í kjölfar flugskeytaárása Írana á landið fyrr í þessum mánuði.
Fimmtán eru sagðir hafa fallið í loftárásum Ísraela á Líbanon um helgina. Ísraelsher segir að hundruðum eldflauga hafi verið skotið á Ísrael frá Líbanon í gær.