Fótbolti

Nígería ætlar að snið­ganga leikinn gegn Líbíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bugaðir Nígeríumenn á flugvellinum í Al Abraq.
Bugaðir Nígeríumenn á flugvellinum í Al Abraq.

William Troost-Ekong, fyrirliði nígeríska fótboltalandsliðsins, segir að það ætli að sniðganga leikinn gegn Líbíu vegna illrar meðferðar. Leikmenn Nígeríu hafa verið fastir á flugvelli í Líbíu í tæpan sólarhring.

Nígeríska liðið átti að lenda í Benghazi í gær en flugvél þess var beint til Al Abraq sem er í um 230 kílómetra fjarlægð frá líbísku höfuðborginni. Nígeríumönnum hefur verið haldið föstum á flugvellinum í Al Abraq, í hálfgerðri gíslingu.

Troost-Ekong hefur verið duglegur að setja inn í færslur á X á meðan dvölinni á flugvellinum hefur staðið. Hann hefur meðal annars sagt að nígeríska liðið ætli ekki að spila leikinn gegn Líbíu á morgun og þeir hafi leitað til nígerísku ríkisstjórnarinnar til að greiða úr flækjunni og bjarga þeim.

Líbíska knattspyrnusambandið segist hafa áhyggjur af stöðunni en harðneitar að brögð séu í tafli og að vélinni hafi viljandi verið beint til Al Abraq.

Nígería vann Líbíu, 1-0, í undankeppni Afríkukeppninnar á föstudaginn en Líbíumenn kvörtuðu yfir meðferðinni sem þeir fengu í aðdraganda leiksins. Þeir segja að flugi þeirra hafi verið breytt, þeir hafi ekki fengið rútu til að ferja sig á leikstað og svo mætti áfram telja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×