Hann furðaði sig á að dómarinn hafi ekki sjálfur farið í skjáinn þegar Ísland vildi vítaspyrnu. Fyrirliðinn segir þó Ísland á réttri leið og hrósaði gestunum fyrir að refsa fyrir mistökin sem íslenska liðið gerði.
„Gríðarlega svekkjandi, komumst 1-0 yfir en svo þeir tvær vítaspyrnur. Þetta var ágætis leikur hjá okkur, við vörðumst ágætlega og sköpuðum okkur færi en þurfum að vera rólegri þegar við komumst á þeirra vallarhelming. Fannst við reyna þvinga boltanum upp öðrum megin frekar en að spila honum til baka og færa yfir,“ sagði Jóhann Berg um leik kvöldsins.
Um vítaspyrnurnar
„Eins og ég sagði við dómarann þá hefði ég viljað að hann hefði sjálfur farið og kíkt á þetta. Hann fór sjálfur í skjáinn þegar þeir fengu víti svo af hverju kíkir hann ekki á okkar líka. Hef ekki séð atvikið (vítaspyrnuna sem Ísland átti að fá) en það er alltaf pirrandi þegar þú færð tvö víti á þig. Mjög svekkjandi.“
Eitt stig úr tveimur leikjum
„Að spila tvo leiki á Laugardalsvelli og fá aðeins eitt stig eru alltaf vonbrigði. Við lendum 2-0 undir gegn Wales en hefðum getað unnið sem og í dag. Eins og ég hef verið að segja í langan tíma þá erum við á réttri leið.“
„Megum ekki gera svona mistök, sérstaklega á móti liði eins og Tyrklandi sem refsa bara.“