Þórdís Kolbrún ræddi við fréttamenn áður en hún gekk á fund ríkisstjórnar, sem boðaður var klukkan 16 á Hverfisgötu.
Á fundinum var ákveðið að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson myndu skipta á milli sín ráðuneytum VG, sem gert er ráð fyrir að verði staðfest á ríkissráðsfundi á morgun.
Fyrir fund var Þórdís Kolbrún spurð út tilkynningu hennar í dag um að hún hyggðist gefa kost á sér í Suðvesturkjördæmi í stað Norðvesturkjördæmis og taka þar annað sæti á lista Sjálfstæðismann, á eftir Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins. Þar sækist hún eftir sæti Jóns Gunnarssonar fyrrverandi dómsmálaráðherra.
„Ég hef sagt það skýrt að það er í fyrsta lagi spurningin um hvar ég geri mest gagn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hugsjónir hans,“ sagði Þórdís Kolbrún. Hún hafi sömuleiðis verið búsett í Kópavogi síðastliðin áratug. „Mér fannst þetta vera tímapunkturinn, þótt þetta sé ekki atburðarásin sem ég sá fyrir mér.“
Það sé samt sem áður erfitt að kveðja norðvesturkjördæmi.
„Ég er þarna fædd og uppalin og er það sem ég er vegna þess. Ég mun sakna þess en ég hætti ekkert að vera Skagamaður. Ég berst auðvitað fyrir landið allt og hagsmunum þess á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar, hún á við í norðvesturkjördæmi eins og í suðvesturkjördæmi. Vonandi fæ ég bara áfram umboð til að sinna mínum störfum.“
Hún segist tilbúin að leiða bæði listann og flokkinn ef til þess kemur að Bjarni stígi til hliðar.
„Þetta eru sannarlega skilaboð um það líka. En maður tekur eitt skref í einu.“
Viðtalið við Þórdísi er í heild sinni hér að neðan.