Innlent

Vara­þing­maður vill þriðja sætið

Árni Sæberg skrifar
Ingveldur Anna hefur tekið sæti á Alþingi sem annar varaþingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi.
Ingveldur Anna hefur tekið sæti á Alþingi sem annar varaþingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi. Vísir/Vilhelm

Ingveldur Anna Sigurðardóttir, lögfræðingur og varaþingmaður, vill þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Þetta tilkynnti Ingveldur í færslu á Facebook í gærkvöldi. Þar segir hún að verkefnin framundan séu stór. Verðbólgan sé á niðurleið en það sé mikilvægt að tryggja áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum.

Stuðla þurfi að nýsköpun, styrkja atvinnulífið og skapa umhverfi þar sem ungt fólk getur séð framtíð sína á Íslandi. Öflugur Sjálfstæðisflokkur sé grundvöllur áframhaldandi hagvaxtar og bættra lífskjara.

„Ég hef öðlast reynslu af stjórnsýslunni sem löglærður fulltrúi sýslumanns síðastliðinn þrjú ár og einnig sem varaþingmaður, til að mynda tók ég sæti sem þingmaður við afgreiðslu breytinga á lögum um útlendinga.“

Nú þurfi Sjálfstæðisflokkurinn að horfast í augu við nýja tíma og mæta sterkur til leiks. Mikilvægt sé að bjóða fram fjölbreyttan lista sem er klár í slaginn.

„Því býð ég mig fram í 3. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar þann 30. nóvember.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×