New York Liberty gat tryggt sér fyrsta meistaratitilinn í sögu félagsins en nú er oddaleikur framundan á sunnudagskvöldið þar annað liðið verður WNBA meistari. Þetta verður í fyrsta sinn í fimm ár þar sem er oddaleikur um titilinn en hann verður spilaður á heimavelli New York Liberty í Brooklyn.
Þrír af fjórum leikjum úrslitaeinvígsins hafa verið mjög spennandi, einn unnist í framlengingu og hinir með tveimur stigum annars vegar og þremur stigum hins vegar. Það er því von á hörðum slag þegar titilinn er bókstaflega undir annað kvöld.
Liberty tapaði fyrsta leiknum á heimavelli en var búið að vinna tvo síðustu leiki einvígsins. Liðin hafa nú bæði unnið útileik og bæði unnið heimaleik. Þetta gæti varla verið jafnara.
Bridget Carleton tryggði Lynx sigurinn í nótt með því að setja niður tvö vítaskot þegar tvær sekúndur voru eftir.
Allar í byrjunarliði Lynx skiluðu tólf stigum eða meira en Kayla McBride var stigahæst með nítján stig og Courtney Williams skilaði fimmtán stigum og sjö stoðsendingum.
Napheesa Collier, stjarna liðsins, var með 14 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta.
Jonquel Jones var atkvæðamest hjá New York liðinu með 21 stig og 8 fráköst en Leonie Fiebich skoraði 19 stig og gaf 5 stoðsendingar.
Stórstjörnurnar áttu ekki sinn besta dag, Breanna Stewart var með 11 stig og Sabrina Ionescu skoraði 10 stig. Saman klikkuðu þær aftur á móti á öllum níu þriggja stiga skotum sínum.