Innlent

Sat yfir líki í fjóra sólar­hringa

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Thelma segir að ein af ástæðum þess að hún vilji segja sögu sína sé sú að hún vilji hjálpa öðrum í sömu stöðu. Hún syrgir það sem hefði getað orðið.
Thelma segir að ein af ástæðum þess að hún vilji segja sögu sína sé sú að hún vilji hjálpa öðrum í sömu stöðu. Hún syrgir það sem hefði getað orðið. Vísir/Vilhelm

Thelma Björk Brynjólfsdóttir lifði við það í aldarfjórðung að eiga móður sem var útigangskona. Móðir hennar flakkaði inn og út úr meðferð í gegnum árin og var á stöðugum vergangi. Hún var flutt í geðrofsástandi á stofnun eftir að sambýlismaður hennar fannst látinn og var að lokum svipt sjálfræði.

Thelma bjó við brotnar heimilisaðstæður þegar hún var yngri og eins og svo margir aðstandendur alkóhólista og fíkla þurfti hún að leggjast í mikla sjálfsvinnu og hlúa að sjálfri sér þegar hún varð eldri. Af skiljanlegum ástæðum hefur hún sterkar skoðanir þegar kemur að málefnum heimilislausra.

Bar ábyrgð á bræðum sínum tíu ára gömul

Thelma ólst upp á Ísafirði hjá foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Foreldrar hennar voru bæði dagdrykkjufólk og þau skildu þegar Thelma var níu ára. Thelma og bræður hennar fluttu með móður sinni til Akureyrar og faðir Thelmu flutti til Reykjavíkur.

„Þetta var erfiður skilnaður fyrir mömmu og hún var ekki sátt. Eftir að við fluttum til Akureyrar fór hún að drekka meira og meira og missti algjörlega tökin. Hún var samt í vinnu á þessum tíma og það var alveg sama þó hún væri alltaf blindfull, hún var fyrirmyndarhúsmóðir. Heimilið var alltaf hreint og fínt og við systkinin vorum alltaf snyrtileg til fara. Mamma ætlaði sko ekki að láta hanka sig á því að það væri skítugt heima hjá sér.

En ég var bara tíu ára gömul þegar ég var farin að taka ábyrgð á yngri bræðrum mínum. Ég sá alltaf um að vekja þá og koma þeim í leikskóla og skóla og var eiginlega bara mamma númer tvö. Og á sama tíma laug ég ofboðslega mikið, fyrir mömmu, til að passa hana og passa upp á ímyndina hennar. Meðvirknin var svo sterk.“

Engu að síður höfðu barnaverndaryfirvöld reglulega afskipti af heimilinu á sínum tíma; fyrir tilstuðlan nágranna, fjölskyldumeðlima og annarra sem sáu að ekki var allt með felldu.

„Það var ekki fyrr en núna nýlega að ég fékk afhentar skýrslur barnaverndarnefndar á Akureyri frá þessum tíma. Þegar ég las skýrslurnar þá sá ég að það voru í raun mun fleiri en ég hélt sem höfðu tilkynnt mömmu til barnaverndarnefndar á þessum tíma. Og ég var glöð og fegin þegar ég uppgötvaði það, af því að mér fannst alltaf eins og fólk hefði verið að bregðast mér og bræðrum mínum á sínum tíma. Barnaverndarnefnd var meiri „grýla“ á þessum tíma og fólk var sjálfsagt hræddara við að tilkynna aðra þangað. En ég sé það núna í dag að það var fyrst og fremst barnaverndarkerfið sem var að bregðast þarna.“

Fór beint á götuna í Reykjavík

Thelma var þrettán ára þegar móðir hennar fór í meðferð, sem átti eftir að vera sú fyrsta af mörgum.

„Ég man hvað ég var sár og reið út í hana þegar hún fór þarna fyrst. Ég var auðvitað búin að vera ljúga stanslaust fyrir hana og fannst hún núna vera búin að koma mér í klandur.“

Í eitt skiptið þegar móðir Thelmu kom heim úr meðferð hafði hún eignast kærasta sem kom með henni, mann sem var bæði drykkjusjúkur og ofbeldishneigður.

„Þetta sumar fór ég til Ísafjarðar að vinna, kom svo heim um haustið og gat ekki hugsað mér að búa þarna lengur. Þarna var ég orðin sextán ára og sjálfráða þannig að ég flutti til Reykjavíkur, fékk mér vinnu og leigði mér íbúð. Eftir það fór allt niður á við hjá mömmu og á endanum missti hún húsnæðið sitt. Hún og kærastinn voru búin að drekka allt frá sér, og selja allt sem þau áttu fyrir áfengi. Yngri bróðir minn var kominn í fóstur og mamma missti forræðið yfir hinum. 

Þetta endaði með því að ég fékk símtal frá barnaverndarnefnd þar sem ég var spurð hvort ég gæti tekið bróður minn að mér. Miðað við allt sem var búið að ganga á, og miðað við hvað ég var búin að vera veik af meðvirkni þá var í raun ótrúlegt að ég hafi fundið hjá mér kjark til að segja nei. Mamma hætti síðan með þessum manni og fór að vera með bróður hans, sem var alveg jafn slæmur félagsskapur. Hún flutti til Reykjavíkur og fór bara beint á götuna.“

Thelma var unglingur þegar mamma hennar fór á götuna.Vísir/Vilhelm

Rónastaðir og rottuholur

Móðir Thelmu var svokölluð „antíkfyllibytta“ eins og Thelma orðar það.

„Hún var aldrei í neinum hörðum efnum, það var bara þetta klassíska brennivín, og svo kanski spritt og kardimommudropar.“

Eftir því sem árin liðu kom Thelma sér fyrir í lífinu; hún lauk námi og fór út á vinnumarkaðinn og eignaðist svo mann og tvö börn. Á sama tíma átti hún móður sem var útigangskona og var á stöðugum vergangi.

„Þegar krakkarnir mínir voru í leikskóla var oft verið að fara með börnin í bæjarferðir hér og þar og það var gífurlega kvíðavaldandi að vita af því að amma þeirra gæti komið upp að þeim í strætó, blindfull og rugluð,“ rifjar Thelma upp.

„Hún fékk sínar örorkubætur, sem fóru auðvitað allar í áfengi. Hún fékk mat hjá Samhjálp, og stundum fékk hún ókeypis mat hjá veitingastöðum í bænum. Hún var held ég með þeim sem fyrstu sem fóru inn á Konukot á sínun tíma. Annars var það bara lögreglustöðin, eða þá að hún hélt til heima hjá hinum og þessum sem voru í sama rugli. Hún fékk úthlutað íbúð nokkrum sinnum en endaði alltaf á því að missa húsnæðið, enda greiddi hún aldrei leiguna og var heldur ekki ákjósanlegur nágranni, henni fylgdi stöðugt partýstand og ónæði.

Það komu oft tímabil þar sem ég reyndi allt sem ég gat til að hjálpa henni. Inn á milli komu tímabil þar sem ég vissi ekkert af henni. Stundum var ég ekki búin að heyra í henni eða sjá hana lengi, og fór þá oft að leita henni, fór á hina og þessa staði „rónastaði“ og rottuholur úti um allan bæ, þar sem hún hélt til innan um fólks í allskyns annarlegu ástandi. Og ég var ekkert alltaf góð við hana, ég viðurkenni það alveg. Stundum fór ég eingöngu til þess að hella mér yfir hana. 

Þess á milli var ég góð við hana og reyndi að sinna henni, færði henni mat og þess háttar. Ég var auðvitað löngu hætt að láta hana fá peninga því ég vissi að hún myndi eyða því öllu í áfengi. Ég sá nokkrum sinnum um að redda henni íbúð sem endaði síðan alltaf með því að ég fékk símtöl frá bálreiðum leigusölum sem skömmuðu mig fyrir að hafa ekki sagt mér frá ástandinu á mömmu.“

Móðir Thelmu fór sem fyrr segir í ótal meðferðir í gegnum tíðina sem skiluðu aldrei árangri.

„Hún var með sína áfallasögu; var búin að gera allskyns skandala og klúður og var búin að missa forræðið yfir börnunum sínum. 

Hún hafði ekkert til að vera edrú fyrir. Hún hafði enga ástæðu til að vakna á morgnana.“

Hörmulegar aðstæður

Í eitt skipti fengu móðir Thelmu og maður sem hún var í sambandi með úthlutað íbúð í Breiðholti sem var á vegum félagsmálayfirvalda.

„Mamma, sem hafði alltaf verið svo myndarleg húsmóðir, var þarna búin að missa tökin á öllu í kringum sig, og á sjálfri sér og hreinlætinu. Það sást þegar komið var inn í íbúðina þar sem þau tvö héngu allan daginn drekkjandi og reykjandi. Lyktin var viðbjóðsleg og allt var í drasli.“

Dag einn hringdi bróðir Thelmu í hana og sagði henni að sambýlismaður móður þeirra væri dáinn.

„Lögreglan fann hann inni í íbúðinni þar sem hann var búinn að liggja látinn í nokkra daga og mamma var þar líka. Hann og mamma höfðu verið á fylleríi og mamma hafði farið í einhverskonar geðrofsástand. Hún var semsagt búin að sitja yfir líki í fjóra sólarhringa.“

Í kjölfarið var móðir Thelmu svipt sjálfræði og vistuð á geðdeild í marga mánuði.

Í dag er hún komin inn á dvalarheimilið Droplaugarstaði.

„Hún lenti á sínum tíma í alvarlegu slysi þegar hún datt aftur fyrir sig í strætó og það kom sprunga á höfuðkúbuna. Hún missti alla heyrn í kjölfarið og þarf að vera með göngugrind. Og eftir öll þessi ár af drykkju er hún komin með heilabilun. Ég er hennar nánasti aðstandandi og hún er í raun eins og þriðja barnið mitt í dag. Ég vil ekki vera í þessu hlutverki, en ég hef ekki val.“

Passar upp á sjálfa sig

Thelma hefur leitað sér hjálpar hjá 12 spora samtökum í gegnum tíðina og segir það hafa skipt sköpum.

„Það segir sig sjálft að maður kemur veikur út úr svona uppeldi eins og ég fékk. Þetta eru svo brenglaðar aðstæður. Ég þurfti að taka meðvitaða ákvörðun um að passa upp á sjálfa mig, og ekki síður að passa mig gagnvart áfengi og hverskyns fíkn. Ég er fegin að ég gerði það. Það var mér líka til happs að kynnast manninum mínum, sem kemur úr allt öðruvísi aðstæðum en ég. 

Bróðir pabba, sem nú er því miður látinn, reyndist mér afskaplega vel á sínum tíma og við áttum mjög gott samband. Hann var virkur í AA samtökunum og mikill reglumaður. Ég gat alltaf hringt í hann og leitað ráða þegar ég var komin algjörlega á heljarþröm. Hann hjálpaði mér mikið.“

Tveir ólíkir jaðarhópar

Í umræðunni um málefni flóttafólks og hælisleitenda hafa margir varpað fram þeirri skoðun að heimilislausir Íslendingar eigi að hafa forgang þegar kemur að búsetuúrræðum.

Thelma er hins vegar ekki sammála.

„Það er engan veginn hægt að bera þessa tvo hópa saman, flóttafólk og heimilislaust ógæfufólk. Báðir þessar hópar eru jaðarhópar, en mjög ólíkir. Flóttafólk missir ættingja, húsnæði og vinnu. Allt öryggið sitt. Það er ekki þeirra val. Mamma mín hafði val. En hún hætti ekki að drekka eftir atvinnumissi, hún hætti ekki eftir að hafa misst forræði yfir bōrnunum sínum, hún hætti ekki eftir að hafa fengið íbúð, hún hætti ekki eftir margar meðferðir, hún hætti ekki þótt hún fengi herbergi á Snorrabraut fyrir konur sem máttu vera í neyslu. Hún vildi ekki eyða peningunum sínum í leigu, rafmagn og húsgögn. Hún vildi áfengi fyrir allan peninginn.

Hvort viltu frekar hafa sem nágranna: manneskju á flótta undan stríði og hörmungum eða langt leiddan fíkil sem er búinn að vera á götunni í mörg ár? Ég veit að það er ljótt að segja þetta, en þetta er sannleikurinn. Þegar kemur að umræðunni um flóttafólk og hælisleitendur er oft minnst á kostnaðinn sem fylgir. Móðir mín er búin að vera baggi á þjóðfélaginu í mörg ár. Allar meðferðirnar, öll úrræðin sem hún hefur fengið og hitt og þetta hefur kostað þjóðfélagið margar milljónir.

Mér finnst líka athyglisvert að það er eins og að málefni heimilislausra og útigangsfólks hafi fyrst komið almennilega í umræðuna um það leyti sem flóttafólk og hælisleitendur byrjuðu að koma til landsins. Ég man allavega ekki eftir þessari umræðu á þeim tíma þegar mamma var á götunni.“

Móðir Thelmu er í raun eins og þriðja barnið hennar í dag.Vísir/Vilhelm

Rödd aðstandenda þarf að heyrast

Thelma segir að ein af ástæðum þess að hún vilji segja sögu sína sé sú að hún vilji hjálpa öðrum í sömu stöðu.

„Það er auðvitað staðreynd að á bak við hvern alkóhólista eru fjölmargir aðstandendur sem þurfa að lifa við óbærilegan sársauka og þjáningu. Mér finnst raddir aðstandenda ekki fá að heyrast nógu oft, sem er kanski skiljanlegt, enda getur skömmin verið svo mikil.“

Hún segir sorglegt að hugsa til þess að þetta séu örlög móður hennar.

„Maður syrgir rosalega mikið það sem hefði getað orðið, ef hún hefði náð sér á strik og verið edrú. Ég sakna þess að eiga mömmu, og ég vildi óska að hún hefði getað verið amma fyrir börnin mín. Sagan hennar á aldrei eftir að enda vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×