Erlent

Gerðu á­rásir á úti­bú meintrar fjár­mála­þjónustu Hezbollah

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið að hreinsunarstörfum eftir árásir næturinnar.
Unnið að hreinsunarstörfum eftir árásir næturinnar. AP/Hassan Ammar

Hundruð íbúa Beirút flúðu heimili sín í gærkvöldi eftir að Ísraelsher gaf út að árásir væru yfirvofandi á útibú fjármálasamsteypunnar Al-Qard Al-Hassan Association.

Samsteypan er sögð þjónusta Hezbollah og starfrækir 30 útibú í Líbanon, þar af fimmtán í Beirút.

Reuters hefur eftir vitnum að í kjölfarið hafi að minnsta kosti tíu sprengingar heyrst í höfuðborginni og að bygging í hverfinu Chiyah hafi verið meðal skotmarka. Byggingin er sögð rústir einar eftir árásina en engan sakaði.

National News Agency í Líbanon segir Ísraelsmenn einnig hafa gert árás á skotmark nærri flugvellinum í Beirút, þar sem bróðurpartur neyðaraðstoðar fer um.

Guardian greinir frá því að samkvæmt yfirvöldum í Bandaríkjunum sjái Al-Qard Al-Hassan um fjármál Hezbollah og veiti þjónustu til íbúa þar sem samtökin njóta vinsælda. Ísraelsher hefur sakað samsteypuna um að fjármagna hryðjuverk gegn Ísrael.

Haft er eftir háttsettum embættismanni í Ísrael að markmið árásanna í nótt hafi verið að koma í veg fyrir að Hezbolla gætu fjármagnað aðgerðir nú og þegar átökum líkur.

Ísraelsher sagði að Hezbolla hefði gert um það bil 70 árásir á Ísrael á aðeins örfáum mínútum í gær, með eldflaugum og drónum. Tekist hefði að koma í veg fyrir nokkrar þeirra.

Varnarmálaráðherra Ísrael, Yoav Gallant, sagði í gær að enn yrði gefið í hvað varðaði árásir á skotmörk í Líbanon, til að koma í veg fyrir frekari árásir á Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×