Erlent

Segja Hezbollah fela gull og fúlgur fjár undir sjúkra­húsi í Beirút

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Reykur stígur til himins eftir árás Ísrael á Dahiyeh í suðurhluta Beirút.
Reykur stígur til himins eftir árás Ísrael á Dahiyeh í suðurhluta Beirút. AP/Bilal Hussein

Sahel-sjúkrahúsið í Dahiyeh-hverfinu í Beirút í Líbanon var rýmt eftir að Ísrael sagði Hezbollah-samtökin geyma hundruð milljóna dollara í reiðufé og gulli í byrgi undir spítalanum.

Ákvörðun virðist hafa verið tekin um rýminguna jafnvel þótt Ísraelsmenn segðust ekki myndu gera árásir á sjúkrahúsið. Fadi Alame, framkvæmdastjóri Sahel, segir fullyrðingar Ísrael um fjársjóðsgeymsluna ósannar.

Ísraelsmenn hafa ekki birt sönnunargögn máli sínu til stuðnings en birtu teikningar af byrginu, sem þeir segja áður hafa verið notað til að fela Hassan Nasrallah, fyrrum leiðtoga Hezbollah.

Þeir hafa hvatt yfirvöld í Líbanon til að leggja hald á fjármunina, sem þeir segja Hezbollah hafa stolið frá íbúum Líbanon.

Ísraelsmenn gerðu árásir á Beirút í gær, eftir að hafa gefið út viðvaranir til íbúa. Að minnsta kosti fjórir létust, þar af eitt barn, og 24 særðust í sprengingu við Rafik Hariri-sjúkrahúsið, sem er stærsta ríkisrekna sjúkrahúsið í Líbanon.

Það er sagt hafa orðið fyrir verulegum skemmdum en er enn starfhæft og tók á móti slösuðum í gær.

Yfirvöld í Ísrael sögðust í gær hafa gert árásir á um 300 skotmörk Hezbollah á 24 klukkustundum. Þá var fjölda eldflauga og dróna skotið á loft frá Líbanon og í átt að Ísrael.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlegur til Ísrael, í sína elleftu heimsókn frá því að Hamas gerðu árás á Ísrael 7. október 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×