Innlent

Grímur undir feldi

Árni Sæberg skrifar
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar. Vísir/Arnar

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, íhugar alvarlega framboð fyrir Viðreisn í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Þetta staðfestir Grímur í samtali við Ríkisútvarpið. Haft er eftir honum að hann hafi þegar rætt málið við yfirmenn sína hjá lögreglunni og að hann muni taka ákvörðun um hvort hann gefi kost á sér síðar í dag.

Viðreisn stillir upp á alla lista og uppstillingarnefnd í Reykjavík áformar að leggja fram tillögu að lista á fimmtudag. 

Ýmsir þungavigtarmenn í Viðreisn hafa lýst því yfir að þeir vilji leiða Viðreisn í Reykjavík. Þar má helst nefna sitjandi oddvita flokksins og þingmenn þær Hönnu Katrínu Friðriksson og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur og Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúa flokksins. Þá hefur nýliðinn Jón Gnarr sagst falast eftir oddvitasæti.

Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir Grími að það sé í höndum uppstillingarnefndar hvar hann endi á lista ef af framboði verður.

Ekki náðist í Grím við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×