Íslenski boltinn

Stubbur hrundi vegna á­lags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það ræðst eftir leik Víkings og Breiðabliks á sunnudaginn hvort liðið verður Íslandsmeistari.
Það ræðst eftir leik Víkings og Breiðabliks á sunnudaginn hvort liðið verður Íslandsmeistari. vísir/diego

Knattspyrnudeild Víkings hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna villu sem kom upp við sölu miða á leikinn gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta á sunnudaginn kemur. Kerfi miðasölufyrirtækisins Stubbs hrundi í hádeginu vegna álags við sölu miða á leikinn.

Víkingar ætluðu að hefja forsölu á miðum til árskortshafa fyrir úrslitaleikinn í hádeginu í dag. Ekkert varð hins vegar af því. Í yfirlýsingu frá Stubbi sagði að salan hefði verið stöðvuð vegna tæknivillu. Stubbur baðst afsökunar á henni og sagði að unnið væri að lausn málsins.

Í kjölfarið sendu Víkingar frá sér yfirlýsingu þar sem knattspyrnusamband félagsins kvaðst harma þá villu sem kom upp við sölu miða til ársmiðahafa. Hún hafi því verið stöðvuð þar til kerfið væri komið í lag og ársmiðahafar yrðu látnir vita af því.

Klukkan rúmlega eitt sendi Stubb frá sér aðra tilkynningu þar sem fram kom að vinnu við lausn villunnar miðaði vel. SMS yrði svo sent út með að minnsta kosti hálftíma fyrirvara til að allrar sanngirni væri gætt.

Leikur Víkings og Breiðabliks fer fram í Víkinni klukkan á sunnudaginn. Liðin eru efst og jöfn í Bestu deildinni en Víkingum dugir jafntefli í leiknum til verða Íslandsmeistari sökum hagstæðari markatölu.

Reiknað er með að 2.500 manns geti sótt leikinn. Breiðablik fékk tíu prósent af þeim miðum, eða 250 talsins. Blikar sjá sjálfir um söluna á þeim miðum.

Klukkan 12:00 áttu ársmiðahafar Víkings að fá sent SMS með hlekk á miðasölu í númeruð sæti í stúku. Klukkutíma síðar áttu ársmiðahafar Víkings að fá SMS með hlekk á miðasölu í stæði og klukkan 14:00 átti almenn miðasala til Víkinga að hefjast.

Leikurinn á sunnudaginn kemur, 27. október, er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Útsending hefst klukkan 17:45 og leikurinn klukkan 18:30. Stúkan gerir svo leikinn og tímabilið upp kl. 21:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×