Innlent

Einn enn í haldi vegna Elko-málsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þjófarnir eru grunaðir um að stela úr þessari verslun Elko í Skeifunni, sem og úr verslun tæknirisans í Lindum Kópavogi.
Þjófarnir eru grunaðir um að stela úr þessari verslun Elko í Skeifunni, sem og úr verslun tæknirisans í Lindum Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Einn er enn í haldi vegna þjófnaðar í verslunum Elko sem voru framin að kvöldi til og um nótt fyrir um mánuði síðan. Enn á eftir að taka ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald á hendur honum.

Þetta segir Heimir Ríkarðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

Þjófnaðurinn var framin að nóttu til í verslunum Elko í Lindum og í Skeifunni. Greint var frá því að virði þýfisins hlaupi á tugmilljónum króna, en þeir höfðu síma, dýr tæki og reiðufé með sér á brott.

Áður hefur verið greint frá því að lítill hluti þýfisins hafi komið í leitirnar, en Heimir segir ekkert meira hafa fundist.

Í fyrstu voru sjö Rúmenar, bæði karlar og konur, handteknir vegna málsins. Þar af voru þrír handteknir eftir að hafa innritað sig í flug á Keflavíkurflugvelli. Aðrir tveir voru handteknir með þýfi á leið í Norrænu. Heimir segir frekari handtökur ekki hafa átt sér stað.

Í kjölfar þess að málið kom upp lýsti lögreglan eftir tveimur mönnum. Skömmu eftir að tilkynning lögreglu þess efnis birtist sagðist hún hafa fengið upplýsingar um hverjir þeir væru.

Heimir segir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í sambandi við löggæsluyfirvöld í London til þess að kanna með einstaklinga sem hafi verið þar, en ekkert hafi komið úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×