Lífið

Upp­gefin á stressinu um mið­nætti

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svanborg og Álfrún höfðu fengið nóg af stressi í aðdraganda jóla.
Svanborg og Álfrún höfðu fengið nóg af stressi í aðdraganda jóla.

Vinahjón segjast hafa fengið nóg af því að hafa einungis getað valið á milli sælgætis og plastsdrasl eða rándýrra leikfanga fyrir jólasveina til að gefa börnum þeirra í skóinn. Þau ákváðu því að taka málin í eigin hendur og taka á sig þriðju vaktina fyrir jólasveina.

„Við ræddum þetta í haust, þessa hefð að gefa í skóinn. Okkur langaði að gefa krökkunum okkar eitthvað nytsamlegt og lærdómsríkt í skóinn en ekki bara nammi og plast drasl sem fer í ruslið á nýju ári,“ segja þær Álfrún Perla Baldursdóttir og Svanborg María Guðmundsdóttir í samtali við Vísi. Þær hafa ásamt eiginmönnum sínum Árna Frey Magnússyni og Ívari Hákonarsyni stofnað fyrirtækið Jólaálfinn sem sérhæfir sig í skógjöfum.

Samverustundirnar mikilvægastar

„Við eigum það auðvitað sameiginlegt að eiga tvö börn hvort parið og höfum í þokkabót þekkst mjög lengi og vorum strax farin að barma okkur yfir því að þurfa að redda öllum þessum gjöfum fyrir krakkana okkar í desember og þá fórum við að spá í því hvort það væri ekki hægt að einfalda foreldrum aðeins lífið.“ 

Svanborg segir þau hafa rekið sig á það að erfitt væri að finna gæða vörur á lágu verði og að flest þroskaleikföng kosti hálfan handlegg. „Við ákváðum því að reyna á að nýta fjöldan og búa til almennilegan pakka sem gæti nýst fleiri fjölskyldum í samvinnu við flott fyrirtæki.“

Álfrún og Árni ásamt dóttur sinni.

Hún segir veruleikann þann að flestir foreldrar hafi í nógu að snúast fyrir jól ár hvert. Öll kannist þau við að hafa þurft að hlaupa út á bensínstöð í stresskasti rétt fyrir miðnætti til þess að redda hlutunum.

„Okkur fannst mikilvægast að gefa samverustundir og smá lærdóm líka. Við vildum fara alla leið strax í upphafi og hugsuðum gjafirnar þannig að þær ættu að vera úthugsaðar, nysamlegar, ókynjaðar og flokkaðar fyrir leikskólaaldur og grunnskólaaldur,“ útskýrir Álfrún.

Síðan hrundi 

Þannig má í pakka Jólaálfsins finna bækur eftir íslenska höfunda í boði Forlagsins, litabók, þroskaleikföng og trölladeigsblöndu frá Vilko. Þær Álfrún og Svanborg segjast vonast til þess að geta létt foreldrum lífið í aðdraganda hátíðanna.

„Allt of oft gleymum við, eða gefum okkur ekki tíma til, að staldra við og njóta jólanna. Það eru einmitt börnin sem hjálpa okkur að muna að gleðjast um jólin og það eru sönn forréttindi að fá að upplifa barnslega jólagleði og tilhlökkun. Við vonum svo sannarlega að þessi samvinna hjálpi fólki að njóta jólanna í staðinn fyrir að horfa á þau þjóta hjá í stresskasti.“

Þær segja nokkuð ljóst að ýmsir foreldrar hafi leitað að slíkri lausn en á fyrsta degi þá hrundi vefsíðan, fjöldi gesta var svo mikill. „Við trúðum náttúrulega ekki eigin augum og þurftum að drífa í því að finna út úr því hvernig við gætum uppfært síðuna svo hún gæti ráðið við meiri traffík,“ segir Svanborg hlæjandi. „Þetta var hreint út sagt ótrúlegt og augljóst að það er eftirspurn eftir því að létta undir með foreldrum og ég held og vona að fólk finni að það er hjarta og hugur í gjöfunum frá Jólaálfinum.“

Ívar og Svanborg með sonum sínum tveimur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×