Fótbolti

Segir að Tottenham sé með nýjan Neymar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Varnarmenn AZ Alkmaar áttu fullt í fangi með Mikey Moore í leiknum gegn Tottenham.
Varnarmenn AZ Alkmaar áttu fullt í fangi með Mikey Moore í leiknum gegn Tottenham. getty/Jacques Feeney

Hinn sautján ára Mikey Moore stökk fram á sjónarsviðið þegar Tottenham sigraði AZ Alkmaar, 1-0, í Evrópudeildinni í gær. Samherji hans hrósaði honum í hástert eftir leikinn.

Richarlison skoraði eina mark leiksins á Tottenham vellinum í gær. Stjarna kvöldsins var hins vegar Moore sem nýtti svo sannarlega tækifærið í byrjunarliði Spurs.

James Maddison var nánast dolfallinn eftir frammistöðu Moores og sló honum gullhamra í leikslok.

„Frá 45.-65. mínútu hélt ég að við værum með Neymar á vinstri kantinum,“ sagði Maddison um Moore.

„Hann var frábær. Vildi fá boltann og var óttalaus. Þú vilt aldrei taka þetta ungæðislega og óttalausa hugarfar frá honum. Hann er ungur strákur, frábær náungi. Þetta er indæll strákur sem vill læra og býr yfir miklum hæfileikum. Ég, sem eldri leikmaður, hjálpa vonandi á leiðinni. Hann hefur alla hæfileikana en þetta snýst bara um að setja undir sig hausinn og leggja hart að sér eins og hann gerir.“

Tottenham er með fullt hús stiga í Evrópudeildinni. Næsti leikur liðsins í keppninni er gegn Galatasaray 7. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×