Handbolti

Guð­mundur Bragi og fé­lagar í stuði í seinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Bragi Ástþórsson nýtti vítin sín vel í kvöld.
Guðmundur Bragi Ástþórsson nýtti vítin sín vel í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Guðmundur Bragi Ástþórsson var traustur á vítalínunni í kvöld þegar lið hans Bjerringbro/Silkeborg fagnaði sigri í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni.

Bjerringbro/Silkeborg vann þá fimm marka útisigur á Ribe-Esbjerg, 33-28,  eftir frábæran seinni hálfleik.

Ribe-Esbjerg var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17-15, en Guðmundur og félagar unnu seinni hálfleikinn 18-11.

Guðmundur Bragi skoraði fimm mörk úr sex skotum sínum leiknum en öll mörkin hans komu af vítalínunni. Eina klikkið hans kom úr eina skotinu hans utan af velli.

Guðmundur var næstmarkahæstur í sínu liði á eftir danska landsliðsmanninum Rasmus Lauge sem skoraði einu marki meira.

Elvar Ásgeirsson skoraði bara eitt mark úr fimm skotum fyrir Ribe-Esbjerg en átti fimm stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson varði þrjú skot í markinu og 33 prósent skot sem komu á hann.

Bjerringbro/Silkeborg heur unnið sjö af fyrstu níu deildarleikjum sínum og er í öðru sæti deildarinnar.

Ribe-Esbjerg er aftur á móti í næst neðsta sæti með aðeins þrjú stig í níu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×