Erlent

Íranar segja skaðann „tak­markaðan“ eftir á­rásir næturinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Tehran, höfuðborg Íran í nótt.
Frá Tehran, höfuðborg Íran í nótt. AP/Vahid Salemi

Klerkastjórn Íran er þegar byrjuð að gera lítið úr árásum Ísrael á landið í nótt. Þær eru sagðar hafa beinst gegn hernaðarskotmörkum í landinu og segja ráðamenn í Íran að skaðinn hafi verið „takmarkaður“. Ísraelar segja árásunum lokið og að þær hafi verið gerðar á loftvarnarkerfi, eldflaugaverksmiðjur og önnur skotmörk.

Að minnsta kosti tveir hermenn eru sagðir hafa fallið í árásunum í Íran í nótt. Talsmaður ísraelska hersins segir að markmiðum árásanna í nótt hafi verið náð. Þá hafa Ísraelar hvatt klerkastjórnina til að svara árásunum ekki frekar og segja að það yrðu mistök.

Sjá einnig: Ísrael gerir loft­á­rás á Íran

Engar árásir virðast hafa verið gerðar á olíuvinnslu Íran eða kjarnorkurannsóknarstofur, eins og Ísraelar höfðu hótað að gera en fregnir hafa borist af því að ráðamenn í Bandaríkjunum hafi beðið Ísraela að gera það ekki.

Í staðinn virðist sem Bandaríkjamenn hafi sent háþróað THAAD-loftvarnarkerfi til Ísrael og hermenn en kerfið er sérstaklega hannað til að skjóta niður skotflaugar.

Wall Street Journal hefur eftir talsmanni þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna að árásir Ísraela í nótt hafi verið gerðar í sjálfsvörn og að Bandaríkjamenn hafi ekki komið að þeim með nokkrum hætti.

Sjá einnig: „Ein­stök sýning“ á getu Banda­ríkjanna í loft­á­rásum

Hann sagði einnig að Ísraelar hefðu markvisst reynt að komast hjá mannfalli meðal óbreyttra borgara.

Daniel Hagari, talsmaður ísraelska hersins, sagði í nótt að árásunum væri lokið.

Rúmlega hundrað flugvélar og drónar

Árásirnar í nótt voru að sögn ríkisstjórnar Ísraels svar við árás Írans á Ísrael í síðasta mánuði, þegar tæplega tvö hundruð skotflaugum var skotið að Ísrael.

Yfirvöld í Íran segja árásir hafa verið gerðar í þremur héruðum landsins og að engri ísraelski herflugvél hafi verið flogið inn í lofthelgi landsins.

Heimildarmenn New York Times í Ísrael segja rúmlega hundrað herflugvélar og dróna hafa verið notaða til árásanna, sem gerðar voru í þremur áföngum. Í fyrsta áfanganum voru árásir gerðar á loftvarnarkerfi og ratsjár Írana og bandamanna þeirra í Sýrlandi og í Írak.

Eftir það voru árásir gerðar á loftvarnarkerfi í Íran og þriðja bylgjan er sögð hafa verið gegn eldflaugaverksmiðjum og skotpöllum í Íran. Í þriðju bylgjunni munu árásir hafa verið gerðar á um tuttugu skotmörk í Íran.

Ísraelar og Íranar hafa um árabil átt í óbeinum átökum. Ísraelar hafa gert leynilegar árásir í Íran og ráðið embættismenn og vísindamenn sem komið hafa að kjarnokuáætlun ríkisins af dögum, svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa Íranar ítrekað hvatt bandamenn sína og vígahópa á þeirra snærum að gera árásir á Ísrael.

Staðan milli Ísrael og Íran þykir þó nokkuð breytt eftir vendingar síðustu vikna, þar sem Ísraelar virðast hafa valdið Hezbollah-samtökunum gífurlegum skaða. Margir af helstu leiðtogum samtakanna hafa verið felldir og Ísraelar segjast hafa grandað stórum hluta umfangsmikilla birgða Hezbollah af eldflaugum.

Times of Israel hefur eftir Yair Lapid, einum af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Ísrael að árásirnar í nótt virðist hafa verið of takmarkaðar. Íranar þyrftu að gjalda dýru gjaldi fyrir árásir þeirra og vígahópa á þeirra vegum á Ísrael.

Lýsti hann yfir vonbrigðum með að ekki hefðu verið gerðar árásir til að valda efnahagslegum skaða á Íran. Sú ákvörðun að gera það ekki hafi verið röng.

„Við gætum og ættum að láta Íran gjalda munu dýrara gjaldi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×