Innlent

Neitaði að færa sig frá lög­reglu­bíl

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að stöfum í miðbæ Reykjavíkur.
Lögregluþjónar að stöfum í miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar handtóku í gær mann sem stóð í vegi lögreglubíls og neitaði að færa sig. Þar að auki neitaði hann að fara af lögreglustöð þegar búið var að afla allra nauðsynlegra gagna um hann og var hann því vistaður í fangaklefa í nótt.

Þá var ökumaður stöðvaður eftir að hafa ekið á 144 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu kílómetrar á klukkustund. Þá kom í ljós að sá hafði aldrei fengið ökuréttindi. Í öðru tilfelli var einn mældur á 149 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu og hafði hann þar að auki áður verið sviptur ökuréttindum.

Að minnsta kosti tveir aðrir ökumenn voru gómaðir við að aka án réttinda.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir að í morgun hafi sjö manns gist í fangageymslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Frá fimm í gær til fimm í nótt sinntu lögregluþjónar 91 máli.

Lögreglunni barst í nótt tilkynningar um nokkrar líkamsárásir í miðbænum.

Þá tilfelli barst tilkynning um umferðarslys í Múlunum en gerandinn var farinn af vettvangi þegar lögregluþjóna bar að garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×