Innlent

Verk­fall kennara skollið á

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Fjölmargir kennarar í Reykjavík lögðu niður störf og komu saman til mótmæla við Ráðhús Reykjavíkur klukkan 14 þann 15. október.
Fjölmargir kennarar í Reykjavík lögðu niður störf og komu saman til mótmæla við Ráðhús Reykjavíkur klukkan 14 þann 15. október. Vísir/Vilhelm

Kennarar í níu skólum víða um land hafa nú lagt niður störf. Um er að ræða fjóra leikskóla, þrjá grunnskóla, einn framhaldsskóla og einn tónlistarskóla. Búið er að samþykkja verkföll í fjórum skólum til viðbótar sem hefjast í nóvember.

Að öllu óbreyttu hefst verkfall í Menntaskólanum í Reykjavík þann 11. nóvember en 25. nóvember í Árbæjarskóla í Reykjavík, Garðaskóla í Garðabæ og Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Hægt er sjá alla skóla sem eru á leið í verkfall á ljósmyndinni hér fyrir neðan.

Níu skólar hefja verkfall á morgun.Vísir/Heiðar

Fundi samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndar Kennarasambands Íslands hjá Ríkissáttasemjara lauk í gær á sjötta tímanum án árangurs. Ekki hefur verið boðaður annar fundur að svo stöddu í húsi Ríkissáttasemjara en vinnufundir Kennarasambandsins munu standa yfir í dag og á morgun. 

Kennarar krefjast þess að laun þeirra verði sambærileg launum sérfræðinga á almennum markaði. Formaður félags grunnskólakennara sagði fyrir helgi kennara vera með um sjö hundruð þúsund krónur á mánuði en þeir krefjist þess að fá rúma milljón.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur sagt kröfu kennara vera óraunhæfa .

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, kveðst vera bjartsýnn að samningar náist og sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að takturinn í samningaviðræðum muni nú breytast þegar að svo alvarlega aðgerðir eru að raungerast.

„Þá eykst pressan á öllum aðilum. Auðvitað á viðsemjendunum en líka á okkur í Kennarasambandinu að þessar aðgerðir sem hefjast í kvöld í níu skólum verði sem allra stystar. Vonandi eykur það fókusinn á því að við förum áfram,“ sagði Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×