Fótbolti

Glódís Perla besti miðvörður í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir átti magnað ár með Bayern München og íslenska landsliðinu og það varð enn betra í gær.
Glódís Perla Viggósdóttir átti magnað ár með Bayern München og íslenska landsliðinu og það varð enn betra í gær. Getty/ P. Schreiber

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir varð í 22. sæti í Ballon d'Or kjörinu en úrslitin voru kunngjörð í gær. Það er líka hægt að líta á niðurstöðuna á annan hátt.

Þetta er besta niðurstaða íslensks leikmanns í þessu árlega kjöri og staðfestir stöðu Glódísar sem eins af bestu leikmönnum heims.

@ingibjorg11

22. sæti segir samt ekki alla söguna. Glódís spilar sem miðvörður og það var enginn miðvörður ofar en hún í kosningunni. Hún er því besti miðvörður í heimi samkvæmt þeim fjölda blaðamanna sem kusu.

Liðsfélagi Glódísar í landsliðinu til margra ára, Ingibjörg Sigurðardóttir, vakti athygli á þessari staðreynd.

„Besti miðvörður í heimi. Stoltasti herbergisfélagi í heimi,“ skrifaði Ingibjörg í sögu sína á samfélagsmiðlinum Instagram.

Næsti miðvörður var í næsta sæti á eftir okkar konu en það var hin brasilíska Tarciane sem spilar með Houston Dash í bandarísku deildinni.

Tveir varnarmenn voru fyrir ofan Glódísi en það voru þær Giulia Gwinn (19. sæti) og Lucy Bronze (20. sæti) sem spila báðar sem bakverðir.

Glódís Perla er bæði fyrirliði Þýskalandsmeistara Bayern München sem og fyrirliði íslenska landsliðsins. Íslensku stelpurnar voru í hópi fyrstu þjóða til að tryggja sér sæti á EM og unnu meðal annars stórsigur á Þýskalandi í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×