Handbolti

Krukkuðu í handboltaheila Ás­björns fyrir leikinn gegn Sävehof

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson þykir mjög fróður um handbolta enda verið lengi að sem leikmaður og aðstoðarþjálfari.
Ásbjörn Friðriksson þykir mjög fróður um handbolta enda verið lengi að sem leikmaður og aðstoðarþjálfari. vísir/anton

Eftir frækinn sigur á Sävehof í síðustu viku mæta Íslandsmeistarar FH sænsku meisturunum í annað sinn í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld.

Ásbjörn Friðriksson átti stórleik í fyrri leiknum fyrir viku og skoraði níu mörk, flest allra á vellinum ásamt ungstirninu Óla Mittún hjá Sävehof.

Hinn þrautreyndi Ásbjörn er ekki bara leikmaður FH heldur einnig aðstoðarþjálfari liðsins. Og FH-ingar fengu hann til að leikgreina fyrri leikinn gegn sænsku meisturunum til að hita upp fyrir leik kvöldsins.

Um er að ræða sex mínútna myndband sem má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Leikgreining með Ásbirni

Þar fer Ásbjörn bæði yfir skemmtilegan sóknarleik Sävehof, sem FH gekk reyndar ágætlega að eiga við fyrir viku, og hvernig FH-ingar ætla að brjóta vörn Svíanna á bak aftur. Ásbjörn segir mjög mikilvægt fyrir FH að klára sóknirnar sínar með skoti og komast aftur í vörn til að forðast það að fá á sig hraðaupphlaup. Þá segir hann að FH-ingar þurfi að nýta það betur að vera manni fleiri en í fyrri leiknum.

FH er með tvö stig í 3. sæti H-riðils Evrópudeildarinnar en Sävehof án stiga í fjórða sætinu.

Leikur Sävehof og FH hefst klukkan 17:45 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×