Innlent

Ofsaakstur um Höfðana endaði með umferðaróhappi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Svona mun leið mannsins um Höfðana hafa verið.
Svona mun leið mannsins um Höfðana hafa verið. Já.is

Karlmaður á sextugsaldri hefur hlotið fjögurra mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ofsakastur um Höfðana í Reykjavík í febrúar á þessu ári sem endaði með umferðaróhappi.

Manninum var gefið að sök að hafa ekið undir áhrifum áfengis og slævandi lyfsins Alprazólam og sviptur ökuréttindum.

Í ákæru sagði að hann hefði keyrt um Ártúnsbrekku á 117 kílómetra hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 80. Hann hafi síðan farið um Sævarhöfða án þess að sinna fyrirmælum lögreglu um að stöðva bílinn, en hún hafði bæði gefið honum merki með blikkandi ljósum og sírenum.

Hann hafi síðan ekið inn Svarthöfða án þess að gefa stefnuljós og farið á öfugan vegarhelming og upp á kant. Þar á eftir hafi hann ekið inn Stórhöfða, aftur án þess að gefa stefnuljós, en þar lauk akstrinum með umferðaróhappi.

Í ákæru segir að maðurinn hafi síðan neitað ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að koma út úr bílnum.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín. Dómnum þótti þessi háttsemi hans sönnuð vegna játningarinnar og annarra gagna málsins. Maðurinn hefur ítrekað hlotið dóma hér á landi frá árinu 2017, og því hlaut hann fjögurra mánaða dóm.

Þar að auki er han sviptur ökuréttindum ævilangt og gert að greiða um 300 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×